Facebook bannar markaðsfyrirtæki hliðhollt Trump

Ummælin voru hliðholl Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Ummælin voru hliðholl Donald Trump Bandaríkjaforseta. AFP

Facebook hefur ákveðið að banna markaðsfyrirtækið Rally Forge frá Arizona og hefur allt efni þaðan verið fjarlægt. 

Ástæðan er rannsókn sem Facebook efndi til eftir fyrirspurn dagblaðsins Washington Post í síðasta mánuði. Í rannsóknni lýstu sérfræðingar fyrirtækinu sem „nettrölla-verksmiðju“. Þar kemur fram að Rally Forge „starfi fyrir hönd Turning Point USA“.

Rannsóknin varð til þess að 220 facebookreikningar, 55 síður og 76 instagramreikningar voru fjarlægð. Margir þeirra sem héldu úti þessum reikningum voru unglingar sem búa í borginni Phoenix eða þar í kring, að því er segir á vef Washington Post

Fyrirtækið hefur verið bannað á Facebook.
Fyrirtækið hefur verið bannað á Facebook. AFP

Þessir fölsku reikningar, sumir með prófílum eða myndum sem voru búnar til með gervigreind, studdu við alvörureikninga hjá fólki sem tók þátt í verkefni, sem snerist meira og minna um að setja inn ummæli sem voru hliðholl Donald Trump Bandaríkjaforseta og öðrum íhaldssömum málefnum víðs vegar á samfélagsmiðla.

Facebook ákvað að refsa ekki Turning Point USA, íhaldssömum samtökum ungs fólks sem eru búsett í Phoenix, eða 26 ára forseta þeirra, Charlie Kirk, vegna þess að samfélagsmiðillinn gat ekki fundið út hversu mikið leiðtogar samtakanna vissu um þau brot sem höfðu verið framin fyrir hönd þeirra, þar á meðal að búa til falska reikninga.

Twitter greip einnig til aðgerða í dag og lokaði 262 reikningum til viðbótar sem tengjast málinu, auk þess sem nokkur hundruð reikningum var lokað í síðasta mánuði eftir fyrirspurn Washington Post.

mbl.is

Bloggað um fréttina