Trump tekur ekki þátt í rafrænum kappræðum

Næstu kappræður forsetaframbjóðendanna eiga að fara fram eftir viku, fimmtudaginn …
Næstu kappræður forsetaframbjóðendanna eiga að fara fram eftir viku, fimmtudaginn 15. október. AFP

Skipuleggjendur kappræðna forsetaframbjóðandanna í Bandaríkjunum tilkynntu fyrir skemmstu að næstu kappræður, sem fara eiga fram 15. október, verði rafrænar. Er þessi ákvörðun tekin í ljósi þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti greindist með kórónuveiruna í síðustu viku. Ákvörðunin væri tekin til að „vernda heilsu og öryggi allra þátttakenda“.

Trump sagði í viðtali við sjónvarpsstöðina Fox News skömmu síðar að hann myndi ekki taka þátt í kappræðunum ef þær yrðu rafrænar. „Ég ætla ekki að taka þátt í rafrænum kappræðum. Það er ekki ásættanlegt fyrir okkur,“ sagði forsetinn. Sakaði hann nefndina, Commission of Presidential Debates, um að reyna að „vernda“ mótframbjóðanda hans, demókratann Joe Biden.

Umrædd nefnd er skipuð fulltrúum beggja stóru flokkanna í bandarískum stjórnmálum, en hún hefur séð um allar kappræður forsetaframbjóðanda í Bandaríkjunum frá því henni var komið á laggirnar árið 1987.

Til stóð að forsetaframbjóðendurnir myndu mætast þrisvar, en þeir hafa þegar mæst einu sinni. Eru stjórnmálaskýrendur á einu máli um að þær kappræður hafi gengið herfilega fyrir sig. Frammíköll, óp og ösk­ur einkenndu fundinn og Chris Wallace, fréttamaður Fox News sem stýrði kappræðunum, átti fullt í fangi með að hemja frambjóðendurna.

Í kjölfarið boðaði nefndin, sem sér um kappræðurnar, að breytingar yrðu gerðar á fyrirkomulaginu til að tryggja að þær gætu farið fram með eðlilegri hætti. Var meðal annars horft til þess að þáttarstjórnandinn hefði möguleika á að slökkva á hljóðnema frambjóðanda þegar tíminn hans er útrunninn. Trump hefur hins vegar gefið það út að að hann muni ekki sætta sig við að leikreglum kappræðna yrði breytt.

mbl.is