Hafna því að önnur bylgja hafi risið

Aldrei hafa jafn mörg smit kórónuveiru greinst í Rússlandi og í dag en íbúar Moskvu virðast margir hverjir ekki kippa sér upp við það. Áberandi er að fólk fari ekki eftir sóttvarnareglum. Rússneskir stjórnmálamenn hafa vísað því á bug að önnur bylgja faraldursins sé hafin í Rússlandi og telja ekki þörf á harðari takmörkunum. 

Rússar tilkynntu fyrsta bóluefnið gegn veirunni í ágúst og boðuðu rússnesk stjórnvöld bólusetningar kennara og lækna í septembermánuði. Þá hefur Vladimír Pútín forseti Rússlands tilkynnt að 50 manns úr hans innsta hring hafi verið bólusettir. Bóluefnið fór ekki í gegn um viðeigandi prófunarferli en þrátt fyrir það greindi Wall Street Journal frá því í lok september að nokkrar þjóðir hefðu undirritað samkomulag við Rússa um skammta af bóluefninu. 

Veitingastaðir og barir í Moskvu voru fullir af fólki og margir íbúar hunsuðu reglur um grímunotkun á sama tíma og smittölur hækkuðu í septembermánuði. Hertar aðgerðir voru ekki kynntar þrátt fyrir aukinn smitfjölda. 

Rússar eru þó sannarlega ekki eina þjóðin sem glímir við fjölgun smita en evrópskum þjóðarleiðtogum hefur víða ekki gengið að koma böndum á nýja bylgju faraldursins. Það gengur meira að segja illa í Þýskalandi en Þjóðverjum var hrósað fyrir sérstaklega snör viðbrögð við faraldrinum í vor. Nú hækka smittölur þar eins og víða annars staðar. 

12.126 tilfelli á einum degi

Stjórnmálamenn í Rússlandi hafa vísað því á bug að önnur bylgja faraldursins sé risin í landinu en einungis Bandaríkin, Brasilía og Indland hafa skráð fleiri tilfelli Covid-19 en Rússar. 

12.126 smit voru skráð í Rússlandi í dag og er um að ræða nýtt smitmet. Síðasta metið var sett í maímánuði og voru smitin þá nokkur hundruð færri. 

Í upphafi heimsfaraldurs komu Rússar á einum hörðustu aðgerðum í heimi til að sporna við útbreiðslu faraldursins en flestum höftum var aflétt í júnímánuði. Embættismenn í Moskvu hafa einungis gripið til mjög vægra aðgerða til að hefta útbreiðslu faraldursins.

Fyrr í þessari viku varaði eft­ir­lits­stofn­un­in Rospotrebna­dzor, sem stýrir helstu viðbrögðum við útbreiðslunni, við því að gripið yrði til nýrra ráðstafana ef núverandi reglum yrði ekki fylgt. Þá sögðu stjórnvöld í Rússlandi að ef ástandið héldi áfram að versna kallaði það á einhverjar aðgerðir eða ákvarðanir, án þess að tilgreina frekar um hvað ræddi.

Íbúar í Moskvu klæddir andlitsgrímum í lest.
Íbúar í Moskvu klæddir andlitsgrímum í lest. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert