Vonast eftir bóluefni í janúar

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Monced Slaoui, yfirmaður bóluefnateymisins, sitja fyrir …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Monced Slaoui, yfirmaður bóluefnateymisins, sitja fyrir svörum á blaðamannafundi í síðasta mánuði. AFP

Monced Slaoui, ónæmissérfræðingurinn sem fer fyrir bóluefnateymi ríkisstjórnar Bandaríkjanna (Operation Warp Speed), segist gera ráð fyrir að lyfjafyrirtæki muni óska eftir því að eftirlitsstofnanir taki bóluefni þeirra til neyðaryfirferðar í lok nóvember. Það gæti þýtt að bólusetningar hæfust snemma næsta árs.

Í samtali við Market Watch segir Slaoui að hann geri ráð fyrir að bóluefnið verði 80-90% árangursríkt, sem er mun hærra en lágmarksviðmið bandaríska lyfjaeftirlitsins (FDA) segja til um. Býst hann við því að um 300 milljón skammtar verði fáanlegir í janúar. Óvissan er þó töluverð.

„Við munum vita hvort bóluefnið virkar einhvern tímann í lok október eða nóvember, eða desember. En ég geri ráð fyrir að hægt verði að óska eftir samþykki [frá FDA] þremur til fjórum vikum eftir að við vitum hvort bóluefnið er áhrifaríkt,“ segir hann.

Banda­rísk yf­ir­völd eiga í sam­starfi við átta einkaaðila um þróun bólu­efn­is: John­son & John­son, Astra-Zeneca-há­skól­ann í Oxford, Pfizer-Bi­oNTech, Moderna, Merck, Vax­art, In­ovio og Nova­vax. Geng­ur verk­efnið und­ir nafn­inu Operati­on Warp Speed.

Banda­rísk stjórn­völd hafa þegar tryggt sér hundruð millj­óna bólu­efn­is­skammta, tak­ist að fram­leiða ör­uggt og skil­virkt efni. Þannig hef­ur verið samið um kaup á 100 millj­ón­um skammta frá Nova­vax fyr­ir 1,6 millj­arða dala og öðrum 100 millj­ónum skammta frá Pfizer og BioNtech fyr­ir tvo millj­arða dala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert