„Ofurdreifingarviðburður“ í Hvíta húsinu

Frá tilnefningu Amy Coney Barrett. Eins og sjá má eru …
Frá tilnefningu Amy Coney Barrett. Eins og sjá má eru einungis nokkrir grímuklæddir á svæðinu. AFP

Anthony Fauci, helsti sóttvarnaséfræðingur Bandaríkjanna, hefur gagnrýnt ráðamenn í Hvíta húsinu fyrir að halda viðburð í síðasta mánuði sem hefur verið tengdur við mikla útbreiðslu kórónuveirusmita. Fauci segir að viðburður sem haldinn var vegna tilnefningar Amy Coney Barrett dómara til Hæstaréttar hafi verið „ofurdreifingarviðburður“. 

Í það minnsta 11 manns sem mættu á tilnefninguna hinn 26. september hafa greinst smitaðir af veirunni. Donald Trump Bandaríkjaforseti er nú sjálfur að jafna sig vegna Covid-19-veikinda. 

Læknar Trumps hafa nú sagt hann lausan við kórónuveiruna og segja hann fullfæran um að standa fyrir samkomum, minna en mánuði áður en hann mætir demókratanum Joe Biden í forsetakosningum þar vestan hafs. 

Trump hefur sjálfur lýst yfir efasemdum um aðgerðir sem miða að því að takmarka útbreiðslu veirunnar, þar á meðal grímunotkun og lokanir. Fleiri en 213.000 hafa fallið úr Covid-19 í Bandaríkjunum. 

Anthony Fauci var lítt hrifinn af viðburðinum í Hvíta húsinu.
Anthony Fauci var lítt hrifinn af viðburðinum í Hvíta húsinu. AFP

Fordæmdi tal um lækningu

Fréttastofa CBS spurði Fauci í gær hvað honum þætti um tregðu Hvíta hússins til að krefjast grímunotkunar og fjarlægðartakmarkana. 

„Gögnin tala fyrir sig sjálf. Það var haldinn ofurdreifingarviðburður (e. superspreader event) í Hvíta húsinu og um var að ræða aðstæður hvar fólk var þétt saman og bar ekki grímu,“ sagði Fauci.

Hann benti á að sérfræðingar hefðu mælt með grímunotkun síðustu sex mánuði og fordæmdi hann allt tal um lækningu við Covid-19, en Trump hefur talað um slíka lækningu í tengslum við tilraunameðferðir sem hann fékk til að berjast við veikindin. 

Frétt BBC

mbl.is