Liverpool ein í þriðja flokki

Talið er að Liverpool verði eina borgin sem sett verður …
Talið er að Liverpool verði eina borgin sem sett verður í þriðja flokk í nýja kerfinu. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, mun kynna nýtt þriggja-þrepa aðvörunarkerfi við kórónuveirunni í Englandi á morgun. Talið er að Liverpool sé eina borgin sem verði sett á þriðja þrepið. Kosið verður um kerfið síðar í vikunni.

Ríkisstjórn Johnsons reynir nú að ná jafnvægi milli sóttvarna og aðgerða í þágu hagkerfisins, en ósætti vegna sóttvarnaaðgerða hefur aukist í Bretlandi síðustu daga.

Nýja aðvörunarkerfið flokkar svæði í þrjá flokka eftir því hversu mikil smithættan er á viðkomandi svæði. Markmiðið er að auka gegnsæi í ákvörðunartöku stjórnvalda og staðla sóttvarnaaðgerðir um allt land.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

BBC greindi frá því í dag að Liverpool yrði eina borgin sem yrði sett í efsta flokkinn, sem þýðir að börum og veitingastöðum verður lokað, gegn óskum yfirvalda í borginni.

Talsmaður Downingstrætis sagði að gríðarlega mikilvægt væri að allir fylgdu fyrirmælum yfirvalda til að stöðva útbreiðslu veirunnar.

Lokunarstyrkir gangi ekki nógu langt

Fjármálaráðherra Bretlands, Rishi Sunak, tilkynnti á föstudag að ríkið myndi greiða tvo þriðju launa starfsmanna hjá fyrirtækjum sem þyrftu að loka vegna aðgerða stjórnvalda.

Engu að síður hafa borgarstjórar borga á Norður-Englandi sagt að stuðningurinn gangi ekki nógu langt m.a. fyrir þá sem eru á lágmarkslaunum, starfsfólk á krám og veitingastöðum, leigubílstjóra og öryggisverði.

Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands
Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands AFP

Fjöldi fyrirtækja hefur þegar þurft að loka vegna sóttvarnaaðgerða í norðurhluta Englands en borgir á Suður-Englandi hafa ekki þurft að grípa eins fast í taumana.

Í Skotlandi var krám og veitingastöðum gert að loka í tvær vikur, en í Skotlandi, sem og í Wales og Norður-Írlandi, ber heimastjórn ábyrgð á sóttvarnaaðgerðum innan mæra sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert