Ályktunin „tapað tækifæri“

Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte.
Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte. AFP

Ályktun um Filippseyjar sem mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti þann 7. október er tapað tækifæri til að ná fram réttlæti fyrir þolendur aftaka án dóms og laga að mati Amnesty International. 

„Í stað þess að hefja nauðsynlega alhliða rannsókn á mannréttindaástandinu á Filippseyjum, er mælst til í ályktuninni, undir forystu Íslands og Filippseyja, að mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna veiti Filippseyjum „tæknilega aðstoð,“ segir í tilkynningu frá samtökunum. 

Aðstoðin beinist einna helst að málum sem tengjast ábyrgðarskyldu, gagnaöflun um brot lögreglu, borgaralegu rými, löggjöf gegn hryðjuverkum og mannréttindamiðuðu vímuefnaeftirliti. 

„Mannréttindaástandið á Filippseyjum gefur tilefni til meira en einungis „tæknilegrar aðstoðar“ Sameinuðu þjóðanna. Brýn þörf er á alhliða alþjóðlegri rannsókn til að takast á við það augljósa refsileysi sem ríkir í landinu,“ er haft eftir Rachel Chhoa-Howard rannsakanda Amnesty International á Filippseyjum. „Þessi veika ályktun er einnig vonbrigði fyrir hugrakkt baráttufólk fyrir mannréttindum, fjölmiðlafólk og aðra sem hafa átt í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar í góðri trú og sett sig í mikla hættu vegna vinnu sinnar.“ 

Ályktunin sem var samþykkt í mannréttindaráðinu þann 7. október síðastliðinn var kynnt af bæði Filippseyjum og Íslandi. Hún fylgir í kjölfar tímamótaályktunar frá árinu 2019 undir forystu Íslands sem óskaði eftir því að mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna ynni skýrslu um stöðu mannréttindamála í landinu og kynnti hana fyrir ráðinu. Sú skýrsla, sem gefin var út árið 2020, greindi frá því hvernig skortur á ábyrgð á mannréttindabrotum síðustu ár hefur skapað menningu refsileysis í landinu. 

Í skýrslunni var einnig greint frá kerfisbundnum og víðtækum aftökum án dóms og laga á þúsundum einstaklinga vegna meints gruns um notkun eða vörslu vímuefna vegna hvatningar til umræddra aftaka frá æðstu stigum ríkisstjórnarinnar.

mbl.is