Hlé á bóluefnistilraunum vegna veikinda

Johnson & Johnson er eitt fyrirtækjanna í bóluefnakapphlaupinu.
Johnson & Johnson er eitt fyrirtækjanna í bóluefnakapphlaupinu. AFP

Lyfjaframleiðandinn Johnson & Johnson hefur gert hlé á tilraunum á bóluefni fyrir kórónuveirunni vegna „óútskýrðra veikinda“ eins sjálfboðaliða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu sem send var út í gær.

Fyrirtækið hóf í síðasta mánuði svokallaðan þriðja fasa bóluefnaprófunar og hugðist fá til sín 60.000 sjálfboðaliða til að prófa bóluefnið.

 „Neikvæðar afleiðingar, veikindi, óhöpp o.s.frv. — jafnvel alvarlegar uppákomur, eru viðbúinn hluti í klínískri rannsókn, sérstaklega svo stórri,“ segir í tilkynningunni en fyrirtækið hefur ekki greint frá því nákvæmlega í hverju veikindin felast eða hve alvarleg þau er.

„Við erum líka að læra meira um veikindi þátttakandans og það er mikilvægt að hafa allar staðreyndir á hreinu áður en við deilum meiri upplýsingum.“ 

Alvanalegt er að gera þurfi hlé á klínískum tilraunum ef upp koma veikindi meðal þátttakenda. Slík hlé þurfa ekki að vara lengi ef vel gengur að rannsaka veikindin, segir Dr. Phyllis Tien, smitsjúkdómalæknir við Háskólann í Kaliforníu en þar stunda Johnson & Johnson og keppinauturinn Astra Zeneca sínar tilraunir. 

Johnson & Johnson er nokkru á eftir helstu keppinautum sínum, á borð við fyrrnefnt Astra Zeneca, sænsk-breskt lyfjafyrirtæki, um þriðja fasa prófunar á kórónuveirubóluefni. Það fyrirtæki hefur einmitt þurft að gera hlé á tilraunum í tvígang vegna veikinda.

Bóluefni Johnson & Johnson gæti þó haft nokkra kosti umfram aðrar tegundir þar sem ekki þarf að frysta það, og sjúklingum gæti nægt einn skammtur í stað tveggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert