Kom sér hjá spurningum um þungunarrof

Amy Coney Barrett kom fyrir réttarfarsnefnd Bandaríkjanna í dag.
Amy Coney Barrett kom fyrir réttarfarsnefnd Bandaríkjanna í dag. AFP

Amy Coney Barrett, sem tilnefnd hefur verið til embættis hæstaréttardómara í Bandaríkjunum, reyndi að komast hjá því að svara spurningum um skoðanir sínar á ákveðnum málefnum við yfirheyrslu réttarfarsnefndar Bandaríkjaþings í dag. 

Barrett kom sér hjá spurningum um þungunarrof, heilbrigðistryggingar og réttindi hinsegin samfélagsins á öðrum degi yfirheyrslunnar í dag eftir því sem BBC greinir frá. 

Hún fullyrti að hún hefði „enga verkaskrá“ og hét því að halda sig við „laganna bókstaf“. 

Komist Barrett áfram í tilnefningarferlinu úr réttarfarsnefndinni mun öldungadeild Bandaríkjaþings kjósa um tilnefningu hennar. Repúblikanar, sem eru í litlum meirihluta í öldungadeildinni, vilja að kosningin fari fram fyrir forsetakosningarnar 3. nóvember. Íhaldssamir dómarar yrðu þá sex við Hæstarétt Bandaríkjanna og frjálslyndir dómarar þrír í kjölfar andláts Ruth Bader Ginsburg í september. 

Í dag sagði Lindsay Graham, þingmaður repúblikana og formaður réttarfarsnefndarinnar, að Barrett væri „einn besti möguleikinn sem Trump forseti hafði getað valið“ fyrir dómstólinn. Þá sagði Chuck Grassley, þingmaður repúblikana, að ferill Barrett sýndi að hún dæmdi í málum á óhlutdrægan hátt. 

Þingmenn demókrata óttast að Barrett komi til með að dæma á öndverðum meiði við Ruth Bader Ginsburg í málefnum eins og þungunarrofi, réttindum samkynhneigðra og heilsufarslöggjöf sem samþykkt var í forsetatíð Baracks Obama og Trump vill nú fá skorið úr um fyrir hæstaréttinum. 

Saka repúblikana um hræsni 

Demókratar hafa einnig sakað repúblikana um hræsni með því að tilnefnda Barrett á þessum tímapunkti. Í mars 2016, þegar Obama lagði fram tilnefningu til hæstaréttardómara, neituðu þingmenn repúblikana að halda yfirheyrslu fyrir réttarfarsnefndinni svo að málið kæmist í atkvæðagreiðslu innan öldungadeildarinnar. Sögðu repúblikanar þá að ekki ætti að tilnefna til embættis hæstaréttardómara á kosningaári. 

Í dag var fyrri dagur beinna spurninga fyrir réttarfarsnefndinni þar sem þingmönnum gefst færi á að spyrja Barrett um ýmis málefni. Síðari dagur beinna spurninga er á morgun. 

Demókratar hafa í dag farið gaumgæfilega yfir dómaraferil Barrett. Hún hefur oftar en ekki dæmt í málum á gagnstæðan hátt við Ginsburg og demókratar hafa lýst yfir áhyggjum sínum af íhaldssömum skoðunum hennar sem dómara. 

Dianne Feinstein, þingmaður demókrata, spurði Barrett í dag hverjar skoðanir hennar væru á réttindum hinsegin samfélagsins og rétti kvenna til þungunarrofs og getnaðarvarna. 

Barrett sagði þá að hún teldi rangt að lýsa yfir skoðunum sínum á fyrri dómafordæmum. „Áætlanir mínar eru að halda mig við laganna hljóðan. Ég hef engar áætlanir um að hnekkja fyrri ákvörðunum,“ sagði Barrett.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert