Forseti Kirgistan segir af sér

Sooronbay Jeenbekov í desember í fyrra.
Sooronbay Jeenbekov í desember í fyrra. AFP

Forseti Kirgistan, Sooronbay Jeenbekov, hefur sagt af sér embætti. Hann kveðst vilja binda enda á þær deilur sem hafa verið uppi eftir þingkosningar fyrr í mánuðinum.

Mótmæli brutust út eftir kosningarnar fjórða október þar sem flokkar hliðhollir Jeenbekov báru sigur úr býtum. Andstæðingar hans segja að brögð hafi verið í tafli og að greitt hafi verið fyrir atkvæði. Niðurstöðurnar voru síðar ómerktar en það dugði ekki til að lægja mótmælaöldurnar.

Frá mótmælum í gær þar sem krafist var afsagnar forsetans.
Frá mótmælum í gær þar sem krafist var afsagnar forsetans. AFP

„Ég ætla ekki að ríghalda í embættið. Ég vil ekki að mín verði minnst sem forsetans sem leyfði það að skotið væri á hans eigið fólk og blóði þess úthellt. Ég hef ákveðið að segja af mér,“ sagði Jeenbekov í yfirlýsingu.

Yfir 1.200 manns særðust og einn lést í átökum sem urðu eftir kosningarnar á milli mótmælenda og lögreglu.

AFP
mbl.is