Samskiptastjóri Harris smitaður

Kamala Harris á fjöldafundi í Las Vegas í byrjun október. …
Kamala Harris á fjöldafundi í Las Vegas í byrjun október. Næstu fjóra daga mun hún þó hvergi fara og sinna kosningabaráttu sinni í gegnum fjarfundarbúnað. AFP

Kamala Harris, varaforsetaefni demókrata, hefur aflýst öllum ferðalögum sínum næstu daga í kjölfar þess að samskiptastjóri kosningateymis hennar smitaðist af kórónuveirunni. Harris hafði ekki verið í nánum samskiptum við þann smitaða á síðustu dögum og þarf því ekki að fara í sóttkví. Hún hefur nú farið í tvær sýnatökur síðan að smit samskiptastjórans greindist og voru niðurstöður þeirra beggja neikvæðar.

Þar til 19. október mun Harris því reka sína kosningabaráttu rafrænt en Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata, mun halda ferðalögum sínum um Bandaríkin áfram.

Í dag eru réttar tvær vikur síðan að Trump Bandaríkjaforseti og mótherji Biden í kosningunum, greindist með kórónuveiruna og svo virðist sem áhrifum veirunnar á kosningabaráttuna ætli aldrei að linna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert