Svíar auka útgjöld til varnarmála um 40%

Sænskir hermenn á eyjunni Gotland í Eystrasalti.
Sænskir hermenn á eyjunni Gotland í Eystrasalti. AFP

Sænsk stjórnvöld hafa í hyggju að auka útgjöld til varnarmála um 40% fram til ársins 2025. Um er að ræða mestu útgjaldaaukningu til hersins síðan í á sjötta áratug síðustu aldar, að því er Peter Hultqvist varnarmálaráðherra segir í samtali við sænska ríkissjónvarpið.

Útgjöld til hersins nema nú um 68 milljörðum sænskra króna (1.070 ma. ISK) eða um 1,5% af landsframleiðslu. Verða útgjöldin því aukin í 95 milljarða (1.490 ma. ISK) árið 2025.

Með útgjaldaaukningunni er áætlað að hægt verði að fjölga hermönnum í landinu úr 60.000 í 90.000 auk þess að uppfæra búnað hersins. Sjóherinn fær annan kafbát til viðbótar við þá fjóra sem fyrir eru, og keypt verður annað lítið herskip (korvetta).

„Verður maður að geta gert tvo hluti í einu eða …
„Verður maður að geta gert tvo hluti í einu eða mega strákar líka sækja um?“ Sænski herinn hefur auglýst grimmt til að fjölga starfsmönnum undanfarin ár. Þessi auglýsing vakti mikla athygli sumarið 2018. Ljósmynd/Försvarsmakten

Tvöfalt fleiri ungmenni herkvödd

Þá verður fjöldi herkvaddra ungmenna aukinn úr 4.000 á ári í 8.000. Svíar afnámu herskyldu í landinu árið 2010 en innleiddu hana á ný árið 2017 eftir að hafa átt í vandræðum með að manna sveitir hersins. Um 100.000 ungmenni eru í hverjum árgangi í Svíþjóð og því eftir sem áður litlar líkur fyrir þann, sem ekki hefur áhuga á að gegna herþjónustu, að verða fyrir valinu.

Þéttbýlisstaðir um land allt munu fá eigin hersveitir á ný, en staðsetning þeirra hefur verið valin út frá hernaðarlegu mikivægi og byggðasjónarmiðum, að sögn ráðherrans. 

Svíar eru ekki í Atlantshafsbandalaginu en hafa á liðnum árum átt í auknum samskiptum við bandalagið auk varnarsamstarfs við Finna og Bandaríkin. Þannig er stutt síðan samþykkt var á sænska þinginu frumvarp sem gefur ríkisstjórninni heimild til að veita Finnum hernaðaraðstoð án aðkomu sænska þingsins en tilsvarandi frumvarp var lagt fram á finnska þinginu.

mbl.is