Segja Ísraela lama friðarumleitanir

Hér má sjá uppbyggingu Ísraela í Ofra í austurhluta Ramallah, …
Hér má sjá uppbyggingu Ísraela í Ofra í austurhluta Ramallah, borgar á yfirráðasvæði Palestínu. AFP

Leiðtogar nokkurra Evrópuríkja hafa fordæmt þá ákvörðun ísraelskra stjórnvalda að heimila þúsundum Ísraela að setjast að innan yfirráðasvæðis Palestínu. Er það sagt grafa undan friðarumleitunum á svæðinu.

Í sameiginlegri yfirlýsingu utanríkisráðherra Þýskalands, Spánar, Bretlands, Frakklands og Ítalíu segir að ákvörðun ísraelskra stjórnvalda brjóti gegn alþjóðalögum og verði til þess fallin að lama viðræður milli Palestínu og Ísraels um lausnir á deilu ríkjanna tveggja.

Ganga gegn sátt við Persaflóaríkin

Einnig er ákvörðun Ísraela sögð ganga í berhögg við þá sátt sem náðist milli Ísraela, Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Bareins. Sú sátt snerist um að koma á betri samskiptum milli Ísraela og Persaflóaríkjanna og var undirrituð fyrir tilstuðlan Bandaríkjanna svo binda mætti enda á áratugalangar nágrannaerjur milli Ísraels og Persaflóaríkjanna.

Einnig var kveðið á um í samningi milli ríkjanna að Ísrael myndi hætta að sölsa undir sig yfirráðasvæði Palestínu á Vesturbakkanum.

Bandaríkin töldu að sú sátt sem náðist gæti komið á stöðugleika á svæðinu og lagt grunninn að frekari friðarumleitunum. Palestínumenn sögðu hins vegar að Persaflóaríkin hefðu svikið sig með því að sættast við óvini sína í Ísrael.

mbl.is