Vanhelgaði grafir gyðinga í Danmörku

Þessi mynd sem var tekin 10. nóvember í fyrra sýnir …
Þessi mynd sem var tekin 10. nóvember í fyrra sýnir skemmdarverkin sem voru unnin í kirkjugarðinum. AFP

Danskur dómstóll hefur dæmt 39 ára karlmann sem er hliðhollur nýnasistum í eins árs fangelsi fyrir að vanhelga grafreit gyðinga í dönsku borginni Randers.

Maðurinn og 28 ára vitorðsmaður hans voru fundnir sekir um að hafa vanhelgað grafreit og fyrir skemmdarverk. Ekki er búið að kveða upp dóm fyrir síðarnefnda brotið.

Í nóvember í fyrra, 81 ári eftir kristalnóttina svokölluðu þegar nasistar brutu allt og brömluðu í verslunum, öðrum byggingum og bænahúsum gyðinga, vanhelguðu mennirnir tveir yfir áttatíu legsteina, veltu sumum um koll og krotuðu á aðra.

AFP

Meðlimur í NMR

39 ára maðurinn, sem ekki hefur verið nafngreindur, er einn af leiðtogum danska útibús samtakanna NMR, að sögn saksóknara.

Meðlimir NMR skilgreina sig sem „byltingarsinnaða þjóðernissósíalista“. Samtökin voru stofnuð í Svíþjóð 1997 og fyrirfinnast á hinum Norðurlöndunum. Hæstiréttur Finnlands bannaði samtökin í september síðastliðnum og sagði að þau hefðu brotið lög um málfrelsi með því að „dreifa hatursfullum hugmyndum um innflytjendur, hinsegin fólk og gyðinga.“

Fjöldi lögbrota sem fól í sér gyðingaandúð jókst í Danmörku um 50 prósent frá 2017 til 2018, að sögn samfélags gyðinga í landinu á síðasta ári.

Í febrúar 2015 lést einn eftir að árás var gerð á bænahús gyðinga í Kaupmannahöfn.

mbl.is