Ásakanir um „gróf“ brot á vopnahléi

Átökin hafa kostað mörg mannslíf. Hér sést armenskur karlmaður við …
Átökin hafa kostað mörg mannslíf. Hér sést armenskur karlmaður við gröf félaga síns úr hernum. AFP

Ráðamenn í Aserbaídsjan hafa sakað hersveitir Armena um að brjóta á nýjasta vopnahléssamningi sem þjóðirnar gerðu til að stöðva átök í Nagorno-Karabakh-héraði. 

Samningurinn átti að taka gildi á miðnætti að staðartíma.

Armenar hafa sakað hersveitir Asera um það sama; brot á nýjasta vopnahléssamningnum.

Samkvæmt yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneyti Aserbaídsjans, sem send var út snemma í morgun, brutu Armenar „gróflega“ gegn nýja samkomulaginu.

Varnarmálaráðuneyti Armena fullyrti laust eftir miðnætti að Aserar hefðu skotið flugskeytum á skotmörk í Nagorno-Karabakh og með því brotið samkomulagið.

Átök ríkjanna um Nagorno-Karabakh hafa staðið í þrjár vikur og eru þau skæðustu frá því að sex ára stríði um svæðið lauk með vopna­hléi árið 1994 en hundruð hafa látist.

mbl.is