Borgarstjóri Kaupmannahafnar áreitti konu

Mál Franks Jensens yfirborgarstjóra á forsíður dönsku blaðanna þessa dagana.
Mál Franks Jensens yfirborgarstjóra á forsíður dönsku blaðanna þessa dagana. mbl.is

Dagar Franks Jensens í embætti yfirborgarstjóra Kaupmannahafnar gætu verið taldir, en hann hefur verið sakaður um að áreita konu kynferðislega og ekki í fyrsta skipti. Boðað hefur verið til krísufundar innan Sósíaldemókrataflokksins danska í kvöld.

Konan sem stígur nú fram heitir Maria Gudme og situr í svæðisráði sósíaldemókrata á danska höfuðborgarsvæðinu. Það gerir hún í viðtali við Jótlandspóstinn þar sem lýsir hún því hvernig Jensen áreitti hana á bar árið 2012 með því að strjúka á henni innanvert lærið. Hún starfaði þá sem ritari fyrir svæðisdeild flokksins. Nokkur vitni staðfesta söguna í umfjöllun Jótlandspóstsins. Þá er einnig greint frá öðru sambærilegu máli, en sú kona er ekki nafngreind.

Frank Jensen hefur verið yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar í áratug og varaformaður Sósíaldemókrataflokksins til átta ára, næstráðandi í flokknum á eftir Mette Frederiksen forsætisráðherra.  

Tvisvar áður, árin 2012 og 2014, komu álíka mál upp en í þau skipti slapp borgarstjórinn einhverra hluta vegna með skrekkinn. Nú er ekki víst að hann verði jafnheppinn.

Segja má að önnur bylgja MeeToo-hreyfingarinnar gangi nú yfir Danmörku, en hún hófst í síðasta mánuði með áhrifamikilli ræðu fjölmiðlakonunnar Sofie Lind. Stutt er síðan Mette Frederiksen sagði á samfélagsmiðlum að hún styddi allar konur sem stigju fram.

Sex dögum síðar hafði Gudme samband við ritara flokksins og greindi honum frá málinu en var ekki sátt við viðbrögðin og ákvað því að koma í fjölmiðla.

mbl.is