Fyrsta aftaka konu í alríkisfangelsi í 67 ár

Lisa Montgomery verður tekin af lífi í desember.
Lisa Montgomery verður tekin af lífi í desember. AFP

Bandarísk yfirvöld mæla fyrir því að dauðadómi yfir Lisu Montgomery, 52 ára gamalli konu frá Kansas, verði framfylgt í desember. Það yrði fyrsta aftakan á konu í bandarísku fangelsi frá árinu 1953.

Montgomery var dæmd til dauða árið 2004 fyrir að hafa myrt þungaða konu. Konan hafði verið kyrkt og Montgomery rændi ófæddu barni hennar úr móðurkviði. Barnið komst lífs af og er 16 ára í dag.

Rannsakendur telja að Montgomery hafi komist inn á heimili konunnar með því að þykjast vera áhugasöm um að kaupa hunda sem hún hafði til sölu.

Dómsmálaráðuneytið bandaríska tilkynnti í fyrra að eftir 16 ára hlé stæði aftur til að hefja aftöku á dauðadæmdum alríkisföngum. Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt þá ákvörðun harðlega.

Lögfræðingar Montgomery segja hana hafa orðið fyrir heilaskaða eftir barsmíðar sem hún mátti þola sem barn. Stjúpfaðir hennar misnotaði hana kynferðislega og tveir fyrrum eiginmenn hennar beittu hana heimilisofbeldi

Enn fremur bentu lögfræðingar hennar á langvinn andleg veikindi hennar og af þeim sökum væri hún ósakhæf. 

Kviðdómur var þeim ósammála og var Montgomery dæmd til dauða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert