Hertar aðgerðir á Ítalíu

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu.
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Yfirvöld á Ítalíu tilkynntu í dag hertar aðgerðir vegna þróunar kórónuveirufaraldursins þar í landi. Smitum hefur fjölgað að undanförnu. 

Giuseppe Conte, forsætisráðherra landsins, sagði að gripið væri til aðgerðanna til að forðast útgöngubann. 

Fram kemur á BBC að borgarstjórum verði heimilað að loka fjölsóttum stöðum klukkan 21 á kvöldin. Þá verður afgreiðslutími veitingastaða styttur og fjöldatakmörk sett á samkomur. 

11.705 ný tilfelli kórónuveirunnar greindust á Ítalíu í dag. Þá voru tilfellin 10.925 á laugardag. 

Conte sagði á blaðamannafundi í dag að nauðsynlegt væri að grípa til aðgerða sem fyrst til að komast hjá útgöngubanni sem hefði umfangsmikil áhrif á efnahag landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert