Ástandið það „hættulegasta í allri Evrópu“

Grunnskólabörn í Brussel, höfuðborg Brussel, bera andlitsgrímur.
Grunnskólabörn í Brussel, höfuðborg Brussel, bera andlitsgrímur. AFP

Belgía gæti brátt verið ofurliði borin vegna nýrra kórónuveirusmita, að sögn heilbrigðisráðherra landsins. Daglegur smitfjöldi í Belgíu hefur farið vaxandi undanfarið. 

Heilbrigðisráðherrann, Frank Vandenbroucke, sagði að ný tilfelli minntu á flóðbylgju og yfirvöld gætu ekki lengur stjórnað því sem nú á sér stað. Hertar aðgerðir sem miða að því að takmarka útbreiðslu smita tóku gildi í Belgíu í dag. T.a.m. hefur öllum krám og veitingastöðum verið lokað í fjórar vikur.  

Fjöldi smitaðra hækkar sífellt í allri Evrópu og hvetur þróunin ráðamenn víða til að herða á aðgerðum. Ítölsk stjórnvöld tilkynntu víðtækar aðgerðir í gær, sunnudag, eftir að metfjöldi daglegra smita greindist þar. Útgöngubann er í níu frönskum borgum og velta yfirvöld í Tékklandi nú fyrir sér algjörri lokun á landsvísu. Þar í landi er hæsti smitstuðullinn í Evrópu. 

Frank Vandenbroucke heilbrigðisráðherra er sannarlega ekki bjartsýnn á ástandið.
Frank Vandenbroucke heilbrigðisráðherra er sannarlega ekki bjartsýnn á ástandið. AFP

Þriðja hæsta dánartíðnin í Belgíu

Belgía fór líka illa út úr fyrstu bylgju faraldursins og var eitt af þeim löndum sem fóru hvað verst út úr henni. Dánartíðni í Belgíu vegna Covid er sú þriðja hæsta á heimsvísu ef horft er til dauðsfalla vegna Covid á hverja 100.000 íbúa. 

Reglur sem taka gildi í dag kveða á um að Belgar megi einungis hitta eina manneskju utan þeirra sem þeir búa með. Þá eigi Belgar einnig að vinna að heiman ef þeir hafi tök á því. Útgöngubann er í gildi frá miðnætti og til klukkan fimm að morgni. Jafnframt er áfengissala óheimil frá klukkan átta á kvöldin. 

Vandenbroucke lýsti ástandinu í Brussel, höfuðborg Belgíu, og í suðurhluta landsins sem því „hættulegasta í allri Evrópu“.

„Ríkisstjórnin hefur einungis eitt að segja við almenning: verndið ykkur, verndið þá sem þið elskið,“ sagði Vandenbroucke í samtali við fréttastofu RTL.

Frétt af BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert