Gagnrýndi Fauci og „alla þessa hálfvita“

Donald Trump og Anthony Fauci.
Donald Trump og Anthony Fauci. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti gagnrýndi Anthony Fauci, sóttvarnalækni Bandaríkjanna, í símtali við starfsfólk úr kosningateymi sínu. Hann gaf í skyn að Fauci, sem er afar virtur og vinsæll læknir, væri „hálfviti“.

Fauci, sem spilar lykilhlutverk í baráttu Hvíta hússins gegn kórónuveirunni, hefur valdið auknum pirringi hjá forsetanum. „Fólk er orðið þreytt á Covid,“ sagði Trump við kosningateymið sitt í símtali þar sem þó nokkrir blaðamenn voru einnig viðstaddir.

„Fólk segir, „hvað með það – látið okkur í friði“. Það er orðið þreytt á þessu. Fólk er þreytt á því að hlusta á Fauci og alla þessa hálfvita,“ sagði forsetinn, að því er bandarískir fjölmiðlar greindu frá.

Faraldurinn hefur orðið næstum 220 þúsund manns að bana í Bandaríkjunum.

„Hann hefur verið hérna í örugglega 500 ár,“ sagði Trump um Fauci, sem er 79 ára og er heimsþekktur fyrir starf sitt sem yfirmaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna.

„Fauci, ef við hlustuðum á hann væru 700.000 eða 800.000 dánir,“ fullyrti forsetinn.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins, Lamar Alexander, kom Fauci til varnar á Twitter og sagði hann vera einn virtasta starfsmann hins opinbera og að hann hefði þjónað sex forsetum. Ronald Reagan hafi verið sá fyrsti.

„Ef fleiri Bandaríkjamenn færu eftir ráðleggingum hans væru tilfellin vegna Covid-19 færri,“ sagði hann.

Ummæli Trumps komu viku eftir að Fauci lýsti yfir óánægju sinni með að ummæli hans voru notuð í myndbandi fyrir kosningaherferð forsetans um kórónuveiruna. Í yfirlýsingu sagðist Fauci aldrei hafa stutt pólitískan frambjóðanda opinberlega og að ummælin hafi verið tekin úr samhengi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert