Miklu fleiri smit en í vetur

Útgöngubann að næturlagi tók gildi í Belgíu í dag og í Sviss er skylda að vera með grímu innanhúss á opinberum stöðum. Yfir 250 þúsund hafa látist í Evrópu af völdum Covid-19 og svo virðist sem mun fleiri séu að smitast þar nú heldur en í fyrstu bylgjunni síðasta vetur.

Kaffihúsum og veitingastöðum hefur verið lokað í Belgíu í fjórar viku á sama tíma og Ástralar létta á takmörkunum vegna faraldursins. Þar hefur fólk þurft að halda sig heima svo mánuðum skiptir í næststærstu borg landsins, Melbourne.

Í Evrópu fjölgaði nýjum smitum um 44% í síðustu viku og í Belgíu eru skráð yfir 700 ný smit á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur. Belgía er nú í öðru sæti hvað varðar fjölda nýrra smita samkvæmt talningu Sóttvarnastofnunar Evrópu.

Ákvörðun stjórnvalda um að fyrirskipa lokun veitingastaða og kaffihúsa í Belgíu hefur vakið mikla reiði meðal eigenda staðanna enda staða þeirra erfið eftir veturinn þegar allt var meira og minna lokað vikum saman. Veitingahúsaeigandi í Brussel segir í samtali við AFP-fréttastofuna að ástandið sé skelfilegt og stöðum blæði út. 

Smit voru fremur fá í Sviss fyrri hluta ársins en undanfarna viku hefur smitum fjölgað þar mjög hratt. Yfirvöld hafa því ákveðið að herða takmarkanir og til að mynda mega ekki fleiri en 15 koma saman. Í tilkynningu kemur fram að smitum fjölgi í öllum aldurshópum og staðan sé áhyggjuefni.

Frá því á laugardag hefur útgöngubann gilt í níu borgum Frakklands frá því klukkan 21 til 6 á morgnana. Þar greindust 32.400 ný smit á laugardag. 

Á Ítalíu hefur nýjum smitum fjölgað hratt og voru hertar reglur settar þar í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert