Rússar skipulögðu netárás gegn Ólympíuleikunum

Ólympíuleikarnir áttu að fara fram í Tókíó í sumar.
Ólympíuleikarnir áttu að fara fram í Tókíó í sumar. AFP

Leyniþjónusta rússneska hersins undirbjó netárás á tölvukerfi Ólympíuleikanna í Tókíó í sumar með það að markmiði að raska leikunum. Breska netöryggisstofnunin hefur greint frá þessu og svipt hulunni af samstarfsverkefni breskra og bandarískra öryggisstofnana.

Áætlanir rússnesku hakkaranna sneru bæði að skipuleggjendum Ólympíuleikanna, vörustjórnun og auglýsendum á leikunum, sem áttu að fara fram í ágúst á þessu ári en hefur verið frestað um ár vegna kórónuveirunnar.

Bannað að taka þátt

Rússum hafði verið bannað að taka þátt í leikunum undir eigin þjóðfána vegna ítrekaðrar og skipulagðrar notkunar rússneskra íþróttamanna á ólöglegum frammistöðubætandi lyfjum. Bannið tók gildi eftir að Rússar voru fundnir sekir um að falsa gögn til Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA).

Bresk yfirvöld segja að netárásir séu mynstur sem rússneska ríkið noti til að ráðast á önnur ríki, allt frá Úkraínu og Georgíu til Bandaríkjanna og Evrópu. „Aðgerðir rússnesku leyniþjónustunnar gegn Ólympíuleikunum eru glannalegar. Við fordæmum þær harkalega,“ segir Domic Raab, utanríkisráðherra Bretlands. „Bretar munu halda áfram að vinna með bandamönnum sínum að því að koma upp um og koma í veg fyrir frekari netárásir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert