Vísað grímulausri úr vélinni

Flugvélar EasyJet
Flugvélar EasyJet AFP

Farþega EasyJet var vísað úr flugvél flugfélagsins fyrir að vilja ekki nota grímu. Atvikið átti sér stað í flugi frá Belfast til Edinborgar í gær.

Myndband var tekið upp af konunni er henni var fylgt út úr vélinni og hefur það vakið mikla athygli á netinu, að sögn BBC.  Þar heyrist hún hrópa á áhöfnina „allir deyja, vitið þið það?“ og eftir það virðist hún þykjast hósta á farþegana.

Í yfirlýsingu frá flugfélaginu er staðfest að atvikið hafi átt sér stað í gær vegna farþega sem hafi hagað sér illa og neitað að nota grímu. „Samkvæmt reglum EASA þurfa allir farþegar núna að koma með sína eigin grímu í flugvélina, sem þeir verða að nota á leiðinni í vélina og í henni, nema þegar þeir borða eða drekka.“

Talsmaður alþjóðaflugvallarins í Belfast á Norður-Írlandi segir að lögreglan á flugvellinum hafi verið kölluð út vegna atviksins. Farþeginn hafi verið handtekinn og málið sé í rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert