Bandarísk stjórnvöld höfða mál gegn Google

Stórt dómsmál hefur verið höfðað gegn Google.
Stórt dómsmál hefur verið höfðað gegn Google. AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa höfðað mál gegn Google sem þau segja hafa beitt „ólöglegri einokun“ við leit á netinu og í tengslum við auglýsingar.

Þetta mun vera stærsta dómsmálið tengt meintri einokun í áratugi og gæti það orðið til þess að tölvurisanum verði skipt upp í smærri einingar.

Fram kemur í umfjöllun AFP-fréttastofunnar að málið gæti tekið mörg ár að malla í dómskerfinu.

Ríkissaksóknarar úr röðum repúblikana í ellefu mismunandi ríkjum höfðuðu málið.  „Gáttin inn á netið er í gegnum Google,“ sagði Jeffrey Rosen, aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna. „En fyrirtækið hefur viðhaldið einokun sinni með útilokunaraðferðum sem skaða samkeppnina.“

Stjórnvöld segja að Google greiði milljarða dollara til að viðhalda stöðu sinni og styrki um leið einokunarstöðu sína.

AFP

Segja fólk velja að nota Google

Google segir dómsmálið vera „afar gallað“ og heldur því fram að mikil samkeppni sé ríkjandi og að viðskiptavinurinn sé alltaf í forgrunni.

„Fólk notar Google vegna þess að það velur það, ekki vegna þess að það er neytt til þess eða vegna þess að það finnur ekki aðra valkosti.“

mbl.is