Brú bjargar öpum í útrýmingarhættu

Tveir gibbonapar á Hainan-eyju í Kína, kvendýr og ungur api. …
Tveir gibbonapar á Hainan-eyju í Kína, kvendýr og ungur api. Aðeins um 30 dýr eru eftir. AFP

Gibbonaparnir á Hainan-eyju í Kína, sjaldgæfasta prímatategund á jörðinni, voru þegar í mikilli útrýmingarhættu árið 2014 þegar öflugasti fellibylur sem farið hefur yfir strönd Kína skall á eyjunni þeirra.

Búsvæði apanna hafði þá þegar verið skert um helming vegna bygginga og skógarhöggs og skógurinn sem eftir var hafði einnig verið grisjaður. Aparnir, sem eru rófulausir, hafast eingöngu við í trjám og fara um svæðið með því að stökkva milli trjánna.

En fellibylnum Rammasun fylgdu miklar aurskriður sem grófu stór skörð í skóginn þar sem aparnir hafast við og skar um leið á samgönguleiðir þeirra.

„Skógareyðing hefur mjög alvarlegar afleiðingar fyrir gibbonapa,“ sagði Bosco Pui Lok Chan, yfirmaður Kadoorie-náttúrurannsóknastofunnar í Hong Kong, við AFP. „Hún skerðir ekki aðeins möguleika þeirra til að afla sér fæðu heldur gerir hún makaleit erfiðari og þeir verða berskjaldaðir fyrir rándýrum.“

AFP

Hugljómun

Eftir fellibylinn tóku Chan og samstarfsmenn hans, sem fylgdust með öpunum, eftir því að þeir áttu í erfiðleikum með að komast yfir þessi nýju skörð í skóginum. „Og þegar þeir reyndu það fóru þeir áhættusamar leiðir með löngum stökkum milli stakra trjáa sem eftir stóðu.“

Þá fékk Chan eins konar hugljómun. „Við smíðuðum tvíþætta hengibrú yfir löskuðu skógarsvæðin,“ sagði hann.

Í grein, sem Chen og samstarfsmenn hans birtu í tímaritinu Scientific Report, kemur fram að atvinnutrjáklifrarar strengdu tvo samsíða kaðla milli trjáa og brúuðu þannig um 15 metra breitt bil. Einnig var komið fyrir myndavélum með hreyfiskynjurum svo hægt væri að fylgjast með því hvort aparnir nýttu sér brúna.

Alls voru níu apar í hópi, sem einangraðist á litlu svæði eftir að skriðurnar féllu. Þetta voru eitt karldýr, tvö fullorðin kvendýr, þrír ungapar, tveir stálpaðir ungar og einn nýfæddur ungi.

176 dagar liðu áður en einn þeirra hætti sér út á kaðlana en síðan fylgdu hinir fljótlega á eftir. Sumir gengu á köðlunum eins og línudansarar, aðrir sveifluðu sér áfram með því að grípa í þá og enn aðrir gengu á öðrum kaðlinum en héldu sér í hinn. Vísindamennirnir fylgdust með brúnni í 470 daga og náðu yfir 200 ljósmyndum og 50 myndskeiðum af öpunum fara yfir hana.

Aparnir notuðu ýmsar aðferðir.
Aparnir notuðu ýmsar aðferðir. AFP

Chan segir að svona hengibrýr séu aðeins skammtímalausn og leggja eigi áherslu á að græða skóginn upp að nýju. Hins vegar geti þessi tilraun haft þýðingu þegar gerðar séu verndaráætlanir fyrir aðrar apategundir.

Alls eru 20 þekktar gibbonapategundir í Asíu og flestar eru flokkaðar í hættu eða  mikilli hættu á válista Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna, IUCN.

Hainan-gibbonapann, Nomascus hainanus, er aðeins að finna í Bawangling-þjóðgarðinum á Hainan-eyju. Áætlað var að aparnir væru um 2.000 talsins á sjötta áratug síðustu aldar en þeim fækkaði verulega á næstu áratugum og eru nú aðeins um 30.

Fullorðnir karlapar eru kolsvartir en kvendýrin með gulllitan feld og svartan koll. Flestir gibbonappar eru með sama makanum ævilangt en á Hainan eru apafjölskyldurnar eitt karldýr, tvö kvendýr og einn ungi. Eldri rannsóknir hafa sýnt að aparnir syngja eins konar tvísöng á morgnana, líklega til að merkja yfirráðasvæði sitt og efla tengsl sín á milli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert