Írlandi nánast skellt í lás

AFP

Írland verður fyrsta ríkið innan Evrópusambandsins þar sem íbúum er gert að halda sig heima í þessari nýju bylgju kórónuveirusmita. Fyrir tveimur vikum hafnaði ríkisstjórnin hugmyndum sóttvarnalæknis um slíkar ráðstafanir. Reglurnar gilda í sex vikur en þrátt fyrir hertar reglur verður skólum ekki lokað.

Forsætisráðherra Írlands, Micheal Martin, kynnti nýjar sóttvarnareglur í gær og gilda þær frá miðnætti á miðvikudag. Öllum verslunum verður lokað fyrir utan matvörubúðir og apótek. Börum og veitingastöðum verður lokað en veitingastaðir geta selt mat til að taka með sér eða sent heim til fólks.

Getur bjargað jólunum

„Allir í þessu landi eru beðnir að halda sig heima,“ sagði Martin í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi.

Aðeins þeir sem starfa í framlínunni mega ferðast til og frá vinnu og hreyfing utandyra er heimil svo lengi sem hún takmarkast við 5 km fjarlægð frá heimili viðkomandi. 

Ríkisstjórn Írlands varar fólk við því að sektað verði fyrir brot á 5 km reglunni og að dregið verði verulega úr almenningssamgöngum. Miðað er við að þær verði aðeins fjórðungur af því sem venjulegt er. 

Forsætisráðherra Írlands, Micheal Martin, kynnti ákvörðunina á blaðamannafundi í gær.
Forsætisráðherra Írlands, Micheal Martin, kynnti ákvörðunina á blaðamannafundi í gær. AFP

Martin segir að skólar og leikskólar verði áfram starfandi þar sem ekki megi leggja framtíð unga fólksins að veði vegna veirunnar.

Bannað verður að fara í heimsóknir og eins verður bann við öllum viðburðum innanhúss. En fólk af tveimur heimilum má hittast úti, svo sem í almenningsgörðum. Jafnframt verður þeim sem búa einir, eru í hættu á félagslegri einangrun eða eru með geðsjúkdóma leyft að hitta heimilisfólk á öðru heimili. 

Ólíkt því sem var í fyrri lokun í mars verður íþróttaiðkun heimiluð á bak við luktar dyr, það er keppni er heimil í knattspyrnu og fleiri íþróttagreinum. 

Martin segir að sennilega séu reglurnar hvergi jafn harðar í Evrópu en nauðsyn beri til. Hann segir að ef allir framfylgi reglunum næstu sex vikurnar geti Írar væntanlega haldið jólin hátíðleg.

Þótti ekki nægjanlega úthugsað

Samtök verslunarinnar á Írlandi segja að tugþúsundir starfsmanna smásölufyrirtækja muni vera án atvinnu vikum saman og mjög ósátt við ákvörðun stjórnvalda. 

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar nú kemur tveimur vikum eftir að hún hafnaði beiðni sóttvarnalæknis landsins um að fara í slíka lokanir. Á þeim tíma sagði varaforsætisráðherra landsins, Leo Varadkar, að tilmæli sóttvarnalæknis um að loka landinu í fjórar vikur væru ekki nægjanlega úthugsuð. Nú er það mat ríkisstjórnarinnar að nauðsynlegt sé að loka öllu í sex vikur til að verja landsmenn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert