Drepin í mótmælum gegn ofbeldi

Nokkrir féllu í skotárás á friðsæla mótmælendur í borginni Lagos í Nígeríu í gærkvöldi. Mannréttindasamtökin Amnesty International kenna öryggissveitum um skotárásina. Mótmælendur höfðu komið saman til að mótmæla lögregluofbeldi í Nígeríu. 

Vitni segja að vopnaðir menn hafi gripið til vopna sinna og hafið skothríð á fleiri en 1.000 mótmælendur í þeim tilgangi að tvístra þeim eftir að útgöngubanni var komið á í því skyni að binda enda á vaxandi mótmæli gegn lögregluofbeldi.

Ríkisstjóri Lagos, sem er stærsta þéttbýlissvæði Nígeríu og raunar Afríku allrar, sagði að 25 hefðu særst í átökunum, tveir þeirra eru á gjörgæslu. Yfirvöld í Lagos hafa heitið því að rannsaka atvikið. 

Lögreglubíll keyrir í gegnum stóran hóp mótmælenda í Lagos á …
Lögreglubíll keyrir í gegnum stóran hóp mótmælenda í Lagos á mánudagskvöld, kvöldi áður en skotárásin átti sér stað. AFP

„Erfiðasta kvöld lífs okkar“

„Þetta er erfiðasta kvöld lífs okkar þar sem öfl sem við getum ekki stjórnað hafa skrifað dökka mynd í sögu okkar,“ skrifaði Sanwo-Olu, ríkisstjóri Lagos, á Twitter snemma í morgun. Þar hét hann því að hann myndi vinna með alríkislögreglunni að því að rannsaka „þetta óheppilega atvik.“ Með tístinu birti hann myndir af sér að heimsækja spítala í Lagos.

Amnesty International hafa gefið það út að nokkrir hafi verið drepnir af öryggissveitum í mótmælunum og nú sé unnið að því að sannreyna hversu margir hafi týnt lífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert