Ný smit rakin til erlendra sjómanna

AFP

Kórónuveirusmitaðir rússneskir og úkraínskir sjómenn hafa hækkað tölu um ný smit á Nýja-Sjálandi. Um er að ræða smit meðal hundruð sjómanna sem komu með flugi til landsins frá Moskvu í síðustu viku til þess að stunda sjósókn á djúpsjávarmiðum við Nýja-Sjáland. Þeir eru allir í sóttkví.

Alls komu  rúmlega 230 sjómenn til Nýja-Sjálands í síðustu viku og hafa þegar 18 þeirra greinst með Covid-19 smit í sóttkvínni að sögn sóttvarnalæknis Nýja-Sjálands, Ashley Bloomfield. 

Nánast ekkert innanlandssmit hefur greinst undanfarið landinu en reglulega hafa komið upp ný smit meðal ferðalanga sem eru að snúa aftur heim. 

Alls voru skráð 25 ný smit í dag á Nýja-Sjálandi og hafa þau ekki verið jafn mörg á einum degi síðan í apríl. Allt í allt hafa rúmlega 1.500 smit og af þeim 25 dauðsföll verið staðfest frá því veiran nam fyrst land á Nýja-Sjálandi snemma á árinu.

Tvo nýju smitanna má rekja til hafnarstarfsmanna sem komu að togara sem nú er í höfn við austurströnd Ástralíu. Áströlsk yfirvöld hafa lýst yfir áhyggjum vegna smita meðal sjómanna og áhafna flutningaskipa en tugir í áhöfn flutningaskips sem er í höfn við vesturströnd Ástralíu eru smitaðir af Covid-19.

Ferðabann er í gildi á Nýja-Sjálandi með fáeinum undantekningum. Þar á meðal sjómennirnir umræddu en þeir eru skráðir sem mikilvægir starfsmenn og geta því komið til landsins gegn því að sæta sóttkví í tvær vikur. 

Bloomfield segir að nýju smitin sýni hættuna sem fylgi komu fólks til landsins. Ekki megi sýna andvaraleysi og opna landamærin upp á gátt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert