„Þetta er ekki raunveruleikaþáttur“

Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, segir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi sýnt að hann sé „óhæfur til að taka starfið alvarlega“.

Þessu greindi hann frá á sínum fyrsta opinbera kosningafundi fyrir Joe Biden, forsetaframbjóðanda demókrata, en forsetakosningarnar fara fram þriðja nóvember.

„Þetta er ekki raunveruleikaþáttur. Þetta er raunveruleikinn,“ sagði Obama í borginni Fíladelfíu í Pennsylvaníu, sem er eitt af lykilríkjunum í kosningabaráttunni.

„Við hin höfum þurft að lifa með afleiðingunum af því að hann er óhæfur til að taka starfið alvarlega,“ bætti hann við.  

Obama hélt áfram og sagði lýðræðið ekki ganga upp ef „leiðtogar ljúga hvern einasta dag“. Hvatti hann jafnframt stuðningsmenn Bidens til að sofna ekki á verðinum þrátt fyrir að skoðanakannanir hafi verið hliðhollar demókratanum. 

Barack Obama á kosningafundinum.
Barack Obama á kosningafundinum. AFP
Donald Trump.
Donald Trump. AFP
mbl.is