Berjast um forsetastólinn í lokakappræðum

Samsett mynd af Biden og Trump frá síðustu kappræðum.
Samsett mynd af Biden og Trump frá síðustu kappræðum. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata, eigast við í lokakappræðum sínum í nótt en innan við tvær vikur eru þangað til forsetakosningarnar í landinu fara fram.

Flestir sérfræðingar voru sammála um að síðustu kappræður þeirra í sjónvarpssal hafi verið á lágu plani. Mikið var um frammíköll og uppnefni, sem varð til þess að skipuleggjendur ákváðu að slökkva á hljóðnemum þeirra í nótt þegar við á í von um að halda hlutunum á siðlegum nótum.

Undirbúningur fyrir kappræðurnar eru í fullum gangi og hafa skilrúm …
Undirbúningur fyrir kappræðurnar eru í fullum gangi og hafa skilrúm verið sett á milli frambjóðendanna tveggja vegna Covid-19. AFP

„Ósanngjarnt að slökkva á hljóðnemanum“

Kappræðurnar, sem verða haldnar í suðurríkjaborginni Nashville og hefjast klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma, eru upphafið að endasprettinum fyrir kosningarnar sem fara fram þriðja nóvember. Bandaríkin hafa í auknum mæli skipst upp í tvær fylkingar og er óttast að niðurstöðurnar verði til þess að dómsmál verði háð í réttarsölum og að enn meiri mótmæli fari fram.

Trump hefur haldið áfram árásum sínum á Biden, sem hefur haft gott forskot í skoðanakönnunum, enda gerir forsetinn allt sem í hans valdi stendur til þess að halda í forsetastólinn eftir fjögur óróleg ár í Hvíta húsinu.

Trump greindist með kórónuveiruna eftir síðustu kappræður og því var kappræðum númer tvö frestað. Þegar halda átti í staðinn rafrænar kappræður tók forsetinn fyrir það. 

Til að fækka frammíköllum í kappræðunum í nótt verður einungis kveikt á hljóðnema frambjóðandans sem hefur orðið í tvær mínútur eftir að fréttamaðurinn sem stjórnar umræðunum hefur borið upp spurningar sínar.

„Mér finnst mjög ósanngjarnt að slökkva á hljóðnemanum og mér finnst það mjög slæmt,“ sagði Trump fyrr í vikunni og kallaði fréttamanninn sem stjórnar í kvöld, Kristen Walker, „róttækan demókrata“.

AFP

Misjafn undirbúningur 

Biden, sem er 77 ára, hefur ekkert komið fram opinberlega í dag, frekar en síðustu daga, og vill frekar undirbúa sig fyrir kappræðurnar. Trump, sem er 74 ára, hefur aftur á móti farið á marga kosningafundi á degi hverjum. Sex klukkustundum fyrir kappræðurnar verður einn slíkur einmitt haldinn í Nashville.

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, veitti fyrrverandi varaforseta sínum stuðning í gær og hvatti demókrata til að sofna ekki á verðinum þrátt fyrir að skoðanakannanir hafi verið hliðhollar Biden. Hann var minnugur þess er Hillary Clinton var talin afar sigurstrangleg fyrir síðustu forsetakosningar en tapaði svo óvænt fyrir Trump.

„Við megum ekki sofna á verðinum, mér er alveg sama um skoðanakannanirnar,“ sagði Obama, sem sat í forsetastól í tvö kjörtímabil. Hann bætti við: „Það voru fullt af skoðanakönnunum síðast og það gekk ekki upp. Hellingur af fólki hélt sig heima við, var latt og sofnaði á verðinum. Ekki núna. Ekki i þessum kosningum.“

Barack Obama á kosningafundinum í gær.
Barack Obama á kosningafundinum í gær. AFP

Gagnrýndur vegna Covid-19

Yfir 220 þúsund manns hafa dáið af völdum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum og hafa áhrif veirunnar stórskaðað efnahag landsins. Trump hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir hvernig hann hefur tekist á við verkefnið. Sjálfur hefur forsetinn sagt að faraldurinn sé nánast um garð genginn þrátt fyrir aukinn fjölda smita og hefur frekar ráðist á viðskipti sonar Bidens, Hunter, þegar faðir hans var varaforseti.

Kona greiðir utankjörfundaratkvæði í ríkinu Iowa 15. október.
Kona greiðir utankjörfundaratkvæði í ríkinu Iowa 15. október. AFP

Biden með gott forskot í Pennsylvaníu

Í niðurstöðum skoðanakönnunar Quinnipiac-háskóla sem var gerð á meðal líklegra kjósenda og birt í gær var Biden með 51% fylgi á móti 43% Trumps í einu af lykilríkjunum Pennsylvaníu, þar sem Trump bar naumlega sigur úr býtum árið 2016. Í Texas mældust Biden og Trump jafnir í könnuninni en fyrir fjórum árum vann forsetinn með níu prósentustiga forskoti.

Rúmlega 40 milljónir Bandaríkjamanna hafa þegar greitt atkvæði utan kjörfundar, sem er næstum 30% þeirra sem mættu á kjörstað árið 2016.

mbl.is