Demókratar sniðgengu atkvæðagreiðsluna

Amy Coney Barrett.
Amy Coney Barrett. AFP

Dómsmálanefnd bandarísku öldungadeildarinnar hefur samþykkt tillögu Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að skipa Amy Coney Barrett í embætti hæstaréttardómara.

Demókratar í nefndinni sniðgengu atkvæðagreiðsluna og sögðu að of skammt væri þangað til forsetakosningarnar þriðja nóvember ættu að hefjast.

Formaður nefndarinnar, Lindsey Graham (til vinstri), ræðir við öldungadeildarþingmanninn Marsha …
Formaður nefndarinnar, Lindsey Graham (til vinstri), ræðir við öldungadeildarþingmanninn Marsha Blackburn á fundinum. AFP

Atkvæðagreiðslan var samþykkt samhljóða en engir demókratar voru á staðnum. Búast má við því að öll öldungadeildin muni samþykkja tilnefningu Trumps á mánudaginn. Ákvörðun forsetans hefur verið harðlega gagnrýnd vegna íhaldssamra skoðana Barretts og vegna þess hversu stutt er í forsetakosningarnar.

Verði tilnefningin samþykkt í öldungadeildinni verða íhaldssamir dómarar við Hæstaréttinn sex talsins en frjálslyndir dómarar þrír eftir andlát Ruth Bader Ginsburg í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert