Fárveik á gjörgæslu með Covid-19

Sophie Wilmes er utanríkisráðherra Belgíu.
Sophie Wilmes er utanríkisráðherra Belgíu. AFP

Utanríkisráðherra Belgíu, Sophie Wilmes, hefur verið lögð inn á gjörgæsludeild fárveik af kórónuveirunni. Wilmes, sem er 45 ára gömul, greindist með Covid-19 í síðustu viku og hefur verið í einangrun síðan. Henni elnaði sóttin og í gærkvöldi var hún lögð inn á gjörgæsludeild sjúkrahúss í Brussel.

„Hún er með meðvitund og getur tjáð sig,“ segir talskona hennar þegar hún staðfesti sjúkrahúsvistina við fjölmiðla í morgun. Heimildir AFP-fréttastofunnar herma að ástand hennar sé stöðugt.

Forsætisráðherra Belgíu, Alexander de Croo, sem tók við embætti forsætisráðherra af Wilmes 1. október, hefur sent henni batakveðjur á Twitter. „Enginn er ónæmur fyrir þessari hættulegu veiru. Saman sem eitt munum við hafa betur í baráttunni við Covid-19!" skrifaði hann á Twitter.

Nokkrir evrópskir ráðherrar eru smitaðir af Covid-19, þar á meðal heilbrigðisráðherra Þýskalands og utanríkisráðherra Austurríkis. Evrópusambandið íhugar að breyta reglum um fundi þar sem fólk hittist eftir að þrír forsætisráðherrar þurftu að fara í sóttkví eftir að aðstoðarfólk smitaðist. 

Belgía er eitt af þeim ríkjum sem hefur farið illa út úr faraldrinum og hafa 10.539 látist þar í landi en alls eru Belgar 11,5 milljónir talsins. 

Samkvæmt Sóttvarnastofnun Evrópu eru ný smit í Belgíu 867,2 talsins á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur. Aðeins Tékkland er með fleiri smit á hverja 100 þúsund íbúa í Evrópu, 975,8.

mbl.is