„Ég er enginn engill“

Svíinn Makaveli Lindén er grunaður um og hefur viðurkennt hrottalegt …
Svíinn Makaveli Lindén er grunaður um og hefur viðurkennt hrottalegt manndráp í Majorstuen í Ósló fyrir tveimur árum. Er honum gefið að sök að hafa stungið knattspyrnuþjálfara 45 sinnum í höfuð og efri hluta líkamans á heimili fórnarlambs síns. Lindén játar brotið en neitar sök á grundvelli geðrofs vegna neyslu fíknilyfja. Eins er hann grunaður um annað manndráp í Mechelen í Belgíu á flótta sínum. Ljósmynd/Sænska lögreglan

Aðalmeðferð í máli hins sænska Makaveli Lindén hófst fyrir Héraðsdómi Óslóar í vikunni, manns sem nú er deilt um fyrir dómstólnum hvort sé þannig staddur andlega að hann skilji hvað hann í raun braut af sér.

Um þessar mundir, 15. október, eru tvö ár liðin síðan Norðmaðurinn Heikki Bjørklund Paltto, 24 ára gamall ástsæll knattspyrnumaður og -þjálfari, var myrtur á hrottalegan hátt á heimili sínu í Majorstuen-hverfinu í miðbæ Óslóar í Noregi. Paltto var bundinn við stól og stunginn 45 sinnum í höfuðið og efri hluta líkamans. Fékk hann ekki rönd við böðli sínum reist og blæddi samkvæmt krufningaskýrslum út á heimili sínu í hádeginu á mánudegi.

Íbúar Óslóar voru felmtri og óhug slegnir þegar málið rataði í fréttir fyrir tveimur árum.

Umfangsmikil lögreglurannsókn hófst samstundis. „Þetta er eitt hrottalegasta mál sem Norðmenn hafa staðið frammi fyrir í lengri tíma,“ sagði Olav Rønneberg, afbrotafréttamaður norska ríkisútvarpsins NRK, í sjónvarpsfréttum 23. október 2018, fyrir tveimur árum upp á dag.

Lítt sefaði það ugg borgarbúa er greint var frá þeim framburði vitna að alblóðugur maður hefði sést ganga út úr fjölbýlishúsi í hádegi á virkum degi, tylla sér á blómaker og kveikja sér í tóbaki. Nóttina fyrir ódæðið hafði hann enn fremur hringt dyrabjöllu annars staðar í borginni og beðið um vatnsglas. Þar var honum ekki hleypt inn.

Bárust böndin fljótlega að Lindén, eftir rannsókn á myndefni öryggismyndavéla, þar á meðal frá lestarstöðinni í Skøyen í Ósló, og leið ekki á löngu uns hann var eftirlýstur um allan heim, í alls 190 löndum, nokkuð sem norsk lögregla gerir ekki á hverjum degi.

Sama myndefni leiddi til þess að lögregla í Frakklandi handtók Lindén í Dijon þar í landi 23. október og var hann upp úr því framseldur til Noregs.

Blóðslóðin reyndist þó lengri. Tæplega sextug kona, sænsk-þýskur fatahönnuður, Johanna Jostameling að nafni, fannst, stungin margoft með eggvopni, eftir að hafa legið látin í þrjá sólarhringa á gólfi á heimili sínu í belgíska bænum Mechelen þar sem Lindén er talinn hafa heimsótt hana á flótta sínum sem lauk í Frakklandi.

Það ódæði hefur Lindén ekki enn viðurkennt og er reyndar ekki ákærður fyrir það í Noregi þar sem meint brot var ekki framið þar. Hins vegar hefur hann játað manndrápið í Majorstuen fyrir tveimur árum.

„Já, ég gerði það,“ svaraði Lindén þegar héraðsdómari í Ósló bað hann að taka afstöðu til ákærunnar á mánudaginn. Viðurkennir hann þó ekki sök í vígi Paltto.

Greindi Lindén frá því að hann hefði rænt mann í Majorstuen með því að ógna honum með eggvopni daginn sem hann myrti knattspyrnumanninn sem leigði íbúð með tveimur vinum sínum en var einn heima er hann mætti örlögum sínum.

Hafi hann svo falið sig í húsagarði af ótta við að lögregla leitaði hans og því næst knúið dyra hjá Paltto sem var svo óheppinn að vera heima.

„Ég fylltist skelfingu [n. jeg fikk panikk],“ sagði Lindén við héraðsdómarann og greindi því næst frá því hvernig hann mundaði hníf að hnakka knattspyrnumannsins og neyddi hann til að ganga inn í stofu þar sem Lindén batt húsráðandann við stól og tók að leita að verðmætum til að hafa á brott með sér, en hann var að eigin sögn nær viti sínu fjær af fíkniefnaneyslu.

Þegar Lindén setti að lokum poka yfir höfuð Paltto greip fórnarlambið til varna og reif pokann af höfði sér. Var Lindén þá vopnaður eldhúshníf. „Hann greip í hnífinn og mér var brugðið. Þetta varð mjög ofbeldisfullt [n. brutalt] [...] Ég er enginn engill, en ég hugsa að ég hefði ekki gert þetta hefði ég ekki verið fárveikur,“ sagði Lindén fyrir dómi og vísaði þar til fíknar sinnar.

Þeir verjandi hans, Øystein Storrvik, halda því fram að hann hafi þjáðst af geðrofi vegna fíkniefnaneyslu þegar ódæðið var framið og sagðist Lindén í framburðarskýrslu sinni fyrir dómi hafa heyrt raddir í höfði sér áður en hann stakk Paltto 45 sinnum í höfuð og efri hluta líkamans sem varð hans bani.

„Ég græt þegar ég heyri rödd móður hans [Paltto]. Mér þykir þetta svo miður. Sá dagur líður ekki sem ég iðrast ekki,“ sagði Lindén við héraðsdómarann.

Hætt er þó við því að Svíinn tali fyrir daufum eyrum, en nú liggur fyrir læknum að meta geðrænt sakhæfi hans og kveða upp úr um það hvort hann hafi gert sér ljósar afleiðingar gjörða sinna á verknaðarstundu. Auk þess bíður hans ákæra í Belgíu fyrir manndrápið sem hann þar í landi liggur undir grun fyrir.

NRK

VG

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert