Partíið búið

Fólk virðir almennt tilmæli stjórnvalda, vinnur heima og forðast fjölmenni.
Fólk virðir almennt tilmæli stjórnvalda, vinnur heima og forðast fjölmenni. AFP

Kórónuveirusmitum fjölgar hratt í Svíþjóð þessa dagana líkt og víðast hvar annars staðar í Evrópu. Stjórnvöld þar í landi kynntu í gær ráðleggingar um smitvarnir en ekki verður um þvingandi aðgerðir að ræða. Ekki á sama hátt og mörg ríki hafa gripið til nú í annarri eða þriðju bylgju Covid-19.

Frá því í um miðjan september hefur nýjum smitum fjölgað í Svíþjóð líkt og annars staðar í Evrópu en alls eru 5.930 látnir af völdum Covid-19 þar í landi. Svíþjóð er eitt þeirra ríkja þar sem dauðsföllin eru flest miðað við höfðatölu. 

Ráðleggingar sóttvarnalæknis voru hertar í Uppsala í vikunni en þar hefur smitum fjölgað frá því háskólanemar sneru aftur í haust. Meðal annars er íbúum ráðlagt að forðast almenningssamgöngur og náið samneyti við fólk sem býr ekki á sama heimili. Tilmælin gilda til 3. nóvember. 

Sóttvarnalæknir Svíþjóðar, Anders Tegnell, segir að fólk geti ekki haldið út nema í takmarkaðan tíma við hertar reglur. Hann segir tímasetninguna mikilvæga. „Þú mátt ekki byrja of snemma og mátt heldur ekki bíða of lengi. Við vonum að þetta sé góð tímasetning.“

Sóttvarnalæknir Svíþjóðar, Anders Tegnell.
Sóttvarnalæknir Svíþjóðar, Anders Tegnell. AFP

Í gær, fimmtudag, voru einnig settar reglur varðandi starfsemi næturklúbba. Að sögn Stefans Löfvens forsætisráðherra er partíið búið í næturklúbbunum og þannig verði það eins lengi og þörf þykir.

Enn er Svíþjóð eitt fárra ríkja heims þar sem fólki er ekki ráðlagt að ganga með grímu og segja yfirvöld að þær gefi falskt öryggi sem dragi úr vægi fjarlægðartakmarkana.

Í Stokkhólmi hefur orðið lítil breyting á daglegu lífi fólks þar sem verslanir, kaffihús og veitingastaðir hafa haldið óbreyttum afgreiðslutíma. 

Flestir styðja tilmæli og fylgja þeim

Á sama tíma og myndir fjölmiðla séu yfirleitt af troðfullum strætisvögnum og fólki á yfirfullum veitingastöðum sýnir könnun sem sænsk stjórnvöld létu gera að 80% Svía hafi breytt hegðun sinni í samræmi við ráðleggingar heilbrigðisyfirvalda að því er segir í frétt AFP-fréttastofunnar. 

Fólk vinnur að heiman og takmarkar samskipti við aðra þrátt fyrir að hvorki sé beitt sektum eða öðrum refsingum fyrir að virða tilmælin að vettugi.

Frá Stokkhólmi í gær.
Frá Stokkhólmi í gær. AFP

AFP-fréttastofan ræddi við Roger Palmqvist skipstjóra í Södermalm-hverfinu í Stokkhólmi við vinnslu umfjöllunar fréttastofunnar um stöðu mála í Svíþjóð. Hann segist treysta þessari nálgun yfirvalda en sé á sama tíma viss um að þetta myndi ekki virka alls staðar. „Það er ekkert sem þvingar þig – en Svíar fylgja reglum,“ segir hann. 

Í gær var einnig aflétt tilmælum um að fólk yfir sjötugu væri í sjálfskipaðri einangrun. Var það gert þar sem ríkisstjórnin óttaðist að með þeim væri eldra fólk að einangrast of mikið með þeim afleiðingum að þunglyndi og einmanaleiki myndu aukast. 

Fyrr í mánuðinum var einnig afnumið bann við heimsóknum á hjúkrunarheimilum sem var eitt af fáu sem var bannað með reglugerð í Svíþjóð vegna kórónuveirufaraldursins. Allt frá því í mars hefur samkomubann miðast við 50 en nú mega 300 koma saman á menningar- og íþróttaviðburðum svo lengi sem fólk situr og virðir fjarlægðarmörk. 

AFP

Skoðanakannanir sýna að meirihluti Svía styður nálgun stjórnvalda þótt einhverjir hafi verið ósáttir og talað um að stjórnvöld væru að spila rússneska rúllettu með líf borgara snemma í faraldrinum, á sama tíma og mun fleiri létust í Svíþjóð af völdum Covid-19 en í nágrannaríkjunum sem settu upp harðari reglur varðandi sóttvarnir. Yfir helmingur þeirra sem hafa látist í Svíþjóð af völdum Covid-19 er íbúar hjúkrunarheimila. 

Maraþon ekki spretthlaup

Á sama tíma hafa yfirvöld ítrekað lagt áherslu á að stefnu Svíþjóðar sé ætlað að takast á við maraþon, ekki spretthlaup. Johan Carlson, framkvæmdastjóri lýðheilsustofnunar Svíþjóðar, segist telja að dæmin annars staðar í Evrópu sýni að það að loka og opna á víxl skili ekki árangri. 

AFP

„Okkar stefna er að skapa aðstæður þar sem þú getur búið við þokkalega eðlilegar aðstæður í samræmi við þær reglur sem eru í gildi,“ segir Carlson og bætir við að til þess að þetta sé hægt þurfi að ríkja almenn sátt um stefnuna og að hún sé almennt virt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert