Þau eru ein en í hreinu húsnæði

Umræðan var mun agaðri en í fyrri kappræðum en Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, reyndi að láta keppinaut sinn, Joe Biden, líta út sem duglausan á meðan Biden sakaði Trump um að kynda undir kynþáttahatri og sýna miskunnarleysi með því að sundra fjölskyldum á landamærunum. Trump sagði aftur á móti að vel væri hugsað um börnin og að þau væru í hreinu húsnæði.

Sjónvarpskappræðurnar í gærkvöldi voru þær síðustu fyrir forsetakosningarnar sem fram fara 3. nóvember. Þrátt fyrir að umræðan væri agaðri þá tókust frambjóðendurnir á um allt á milli himins og jarðar, allt frá Kim Jong Un og Adolf Hitler. 

Á sama tíma og kórónuveirufaraldurinn er það sem er helst í huga kjósenda hét Biden því að reyna að ná tökum á faraldrinum sem hefur kostað yfir 220 þúsund mannslíf í Bandaríkjunum. Sá sem ber ábyrgð á því að dauðsföllin eru þetta mörg á ekki að sitja á forsetastóli segir Biden. „Við erum að fara inn í dimman vetur. Dimman vetur,“ varaði fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna áhorfendur við. „Ég mun binda endi á þetta,“ sagði Biden án þess að upplýsa um hvernig hann ætlaði sér að fara að því. 

Trump, sem er einn þeirra fjölmörgu sem hafa smitast af Covid-19, var aftur á móti bjartsýnn þrátt fyrir að smitum fjölgi hratt að nýju í Bandaríkjunum. Veiran væri að hverfa að sögn Trumps.

Biden vakti athygli á fréttum vikunnar um að ekki væri hægt að finna foreldra 545 barna sem voru aðskilin frá foreldrum sínum á landamærunum við Mexíkó af bandarískum landamæravörðum.

„Ég er minnsti rasistinn í þessu herbergi“

„Þessi börn eru ein og eina engan stað til að fara. Þetta er glæpsamlegt,“ sagði Biden og sagði stefnu forsetans í málefnum innflytjenda vera í andstöðu við það sem Bandaríkin standi fyrir sem þjóð.

Trump svaraði því til að vel væri hugsað um börnin á meðan þau væru aðskilin frá foreldrum sínum. „Þau eru í húsnæði sem er svo hreint,“ var svar Trump við ummælum Bidens.

Biden lagði til atlögu við Trump varðandi rasisma, árásir hans á múslíma, móðganir í garð Mexíkó og að hann hafi ekki fordæmt öfgasinnaða hvíta rasista í síðustu kappræðum. Trump sagði aftur á móti að síðustu fjögur ár sem hann hefur gegnt embætti forseta Bandaríkjanna séu þau bestu í sögu Bandaríkjamanna af afrískum uppruna. „Ég er minnsti rasistinn í þessu herbergi.“

„Enginn hefur gert það sama og ég hef gert fyrir samfélag svartra frá tímum Abraham Lincoln,“ bætti Trump við og vísaði þar til þess að þegar Lincoln gegndi embætti forseta Bandaríkjanna hefði hann fellt þrælahald úr gildi árið 1863.

„Saklaust barn“

Líkt og Trump hafði heitið fyrir kappræðurnar þrýsti hann á Biden að útskýra stöðu sína fyrir bandarísku þjóðinni varðandi ásakanir um spillingu í tengslum við viðskipti sonar Bidens, Hunter, í Kína og Úkraínu. „Og ekki bjóða mér upp á þetta bull um að þú sért saklaust barn,“ sagði Trump. 

Talaði Trump um að sagt væri að Biden væri spilltur stjórnmálamaður og vísaði í tölvupósta sem eiga að hafa fundist á snjalltæki í eigu Hunter. Biden svaraði því til að hann hefði aldrei þegið krónu frá erlendum aðilum. 

Sagðist vita meira en Biden um vind

Loftslagsmálin voru einnig til umræðu en Trump hefur alltaf haft litla trú á að saka mætti mannkynið um að bera ábyrgð á loftslagsvánni. Rakkaði hann niður hugmyndir Biden um að hverfa frá jarðefnaeldsneyti í átt að grænni orku. „Hann heldur að vindur valdi krabbameini, vindmyllur,“ sagði Trump og bætti við hann vissi miklu meira en Biden um vind. 

Kim og Hitler

Biden gekk á Trump varðandi vinskap hans við leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong Un, og sakaði forsetann um að gera einræðisherra lögmætan. „Þú veist að við eigum ekki í stríði við Norður-Kóreu. Samband okkar er gott,“ svaraði Trump reiður í bragði. „Að eiga í góðu sambandi við þjóðarleiðtoga annarra ríkja er gott,“ bætti Trump við er stjórnandi umræðnanna reyndi að loka á hann. 

Biden svaraði að fyrri dæmi sýndu að slík vinátta Bandaríkjanna við ákveðna leiðtoga væri ekki alltaf til góðs. „Mér skilst að við höfum átt gott samband við Hitler áður en hann gerði innrás í Evrópu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina