Forseti Póllands smitaður af Covid-19

Andrzej Duda, forseti Póllands, er með Covid-19 en við góða …
Andrzej Duda, forseti Póllands, er með Covid-19 en við góða heilsu. AFP

Forseti Póllands, Andrzej Duda, hefur greinst með kórónuveiruna en smitum fjölgar mjög hratt í Póllandi. 

Að því er fram kemur í tilkynningu greindist Duda við sýnatöku í gær en hann er við góða heilsu. Ekki liggur ljóst fyrir hvenær Duda smitaðist en hann tók þátt í fjárfestingaþingi í Tallinn í Eistlandi á mánudag. Þar hitti hann forseta Búlgaríu að máli, Rumen Radev, sem síðar fór í einangrun vegna smits.

Sóttvarnareglur voru hertar til muna í Póllandi í dag og fólk beðið að vera sem minnst á ferli. Til að mynda hefur hluta grunnskóla verið lokað og eins veitingastöðum. Í gær voru staðfest smit í Póllandi 13.632 talsins og hafa aldrei verið fleiri á einum sólarhring frá upphafi kórónuveirufaraldursins. 

Pólverjar hafa verið beðnir að vinna heima ef þeir geta og í grunnskólum landsins mæta aðeins fyrstu þrír árgangarnir í skólann. Mennta- og háskólar færðust yfir í fjarnám fyrir viku. Allir þeir sem eru komnir yfir sjötugt eru beðnir að halda sig heima. 

Aðeins er hægt að sækja sér mat eða drykki á veitingastöðum, kaffihúsum og börum. Líkamsræktarstöðvar og sundlaugar landsins eru lokaðar. 

Bann er við því að fleiri en fimm komi saman og harðar reglur gilda varðandi fjölda í verslunum, almenningssamgöngum og við trúarathafnir. Brúðkaup eru bönnuð. 

Þjóðarleikvanginum í Varsjá hefur verið breytt í bráðabirgðaspítala og stjórnvöld eru að koma upp bráðabirgðaheilbrigðisþjónustu víðar.

mbl.is