Elskaði ís og rjóma

Joan Hocquard.
Joan Hocquard. Skjáskot af Wiki-fox

Joan Hocquard, sem var elsta manneskja Bretlands, lést í gær 112 ára að aldri. Hún sagði alltaf að það væri enginn leyndardómur á bak við það að ná háum aldri og hámaði í sig ís og rjóma og hafði skyndilausnir eins og megrunarkúra að háði og spotti.

Hocquard fæddist 29. mars 1908 en hún deildi afmælisdeginum með Bob Weighton sem varð allra karla elstur í heimi en hann lést í Hampshire í maí. 

Að sögn frænda hennar, Pauls Reynolds, lést Hocquard á heimili sínu í Dorset. Hún ólst upp í Keníu þar sem faðir hennar var embættismaður landstjórnarinnar. Hún stundaði nám við heimavistarskóla í Sussex og starfaði síðar sem kokkur á hóteli í Genf. Við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar starfaði hún við sjúkraflutninga og keyrði sjúkrabíl í London þangað til hún flutti til suðurstrandarinnar. 

Hún giftist Gilbert Hocquard, sem deildi með henni áhuganum á siglingum og ferðalögum. Reynolds segir að hún hafi alltaf verið afar sjálfstæð og það hafi verið táknrænt fyrir hana að hafna afmæliskorti frá Elísabetu Englandsdrottningu á 100 ára afmælinu þar sem hún vildi ekki að fólk vissi hvað hún væri gömul. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert