Fundu ummerki um vatn á tunglinu

Samkvæmt tveimur rannsóknum sem birtust í ritrýnda tímaritinu Nature Astronomy er vatn að finna á tunglinu. Vísindamenn telja að þetta geri geimförum kleift að dvelja þar til langs tíma. Bandaríkjamenn segjast ætla að senda menn á tunglið að nýju fyrir lok þessa áratugar.

Í frétt Washington Post er sagt frá rannsóknunum tveimur. Í annarri rannsókninni eru lagðar fram sannanir fyrir því að vatnssameindir sé að finna, jafnvel bundnar í gler, á sólarhlið tunglsins. Í hinni rannsókninni er fullyrt að vatn megi finna í litlum gígum á yfirborði tunglsins, sem eru í skjóli fyrir sólarljósi. Samanlagt yfirborð þeirra er sagt vera um 15 þúsund ferkílómetrar.

„Það góða við vísindin er að báðar rannsóknir leggja fram tilgátur sem eru prófanlegar,“ er haft eftir Bethany Ehlmann, prófessor við Kaliforníuháskóla, vegna uppgötvananna.

Vísindamenn telja sig hafa fundið ummerki um vatn á yfirborði …
Vísindamenn telja sig hafa fundið ummerki um vatn á yfirborði tunglsins. AFP

Ætla aftur til tunglsins

Bandaríkjamenn gangsettu í fyrra áætlun sína Artemis, sem kveður á um að senda skuli geimfara til tunglsins fyrir lok þessa áratugar. Að skjóta vatni út í geim kostar þúsundir dollara á hvern lítra. Nýlegar uppgötvanir geta mögulega útrýmt þeirri þörf, þar sem geimfarar munu geta svalað þorsta sínum með tungl-vatni.

Tungl-vatn nýtist þó ekki einungis til manneldis, heldur líka til þess að skjóta geimskutlum til baka frá tunglinu að því er fram kemur í frétt Washington Post. 

Árið 2018 fundust ummerki um vatn á bæði norður- og suðurpól tunglsins. Sér í lagi vakti „vatnsbólið“ á suðurpólnum mikla athygli en það var talið vera miklu stærra. Hins vegar var um getgátur að ræða og því erfitt að færa sannanir fyrir yfirlýsingum vísindamanna um vatn á pólum tunglsins. Um það var meðal annars deilt hvort vatnsyfirborðið væri frosið eða í einhverjum öðrum fasa – ekki var það í vökvaformi að minnsta kosti.

Geimfarinn Harrison Schmitt safnar tunglgrjóti í desember 1972 í ferð …
Geimfarinn Harrison Schmitt safnar tunglgrjóti í desember 1972 í ferð Appolo 17. Síðan þá hefur enginn stigið fæti á tunglið, það gæti þó breyst innan nokkurra ára. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert