Hámark fimm í heimsókn

Norska Stórþingið. Ríkisstjórnin hélt í gær neyðarfund og kynnti nýjar …
Norska Stórþingið. Ríkisstjórnin hélt í gær neyðarfund og kynnti nýjar reglur í kjölfar 1.290 nýsmita í síðustu viku auk þess sem Óslóarborg kynnti sérreglur en þar ná nýsmit nú 400 á viku. AFP

Í kjölfar 1.290 nýrra kórónuveirutilfella í Noregi í síðustu viku og 54 innlagna á sjúkrahús blés ríkisstjórnin til neyðarfundar í gær þar sem enn voru kynntar nýjar reglur um samskiptahætti landans, í þetta sinn með gildistíma fram í desember.

Talaði Erna Solberg forsætisráðherra á fundinum auk Bent Høie heilbrigðisráðherra og Gury Melby, ráðherra þekkingar- og aðlögunarmála.

Er nýju reglunum, sem taka gildi á miðnætti í kvöld, ætlað að standa skammt fram í jólamánuðinn og lét forsætisráðherra þau orð falla að von hennar væri að ástandið þá leyfði jólahald sem líktist því sem þjóðin væri vön. „Kórónusmitið hefur umlukið okkur eins og haustmyrkrið, örlítið meira hvern daginn sem líður,“ sagði Solberg í ávarpi sínu.

Gestaþrautir fyrir fimm

Það sem ótvírætt vakti mesta athygli af nýja regluverkinu er að fleiri en fimm gestir mega nú ekki koma í heimsóknir á heimili fólks – nema auðvitað gestahópurinn komi allur af sama heimilinu, þá leyfast fleiri gestir.

Leyfilegur fólksfjöldi á samkomum á vegum einkaaðila fer úr 200 í 50 en helst 200 á opinberum samkomum. Aðrar nýjar reglur snúa að erlendu starfsfólki á leið til Noregs í vinnu. Komi það frá löndum sem Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins skilgreinir sem rauð, hvað fjölda nýsmita varðar, fæst ekki lengur undanþága frá sóttkví við komu til Noregs. Fólk frá öðrum Evrópulöndum þarf að gangast undir skimun þriðja hvern dag og skila þar neikvæðu auk þess að búa eitt í herbergi fyrstu dagana, en leyfist þó að sækja vinnu.

Grímur á veitingahúsum í Ósló

Í höfuðborginni Ósló, þar sem nú greinast um 400 ný smit á viku, kynnti Raymond Johansen borgarráðsformaður í fyrradag sérreglur sem tóku gildi í gær.

Ber þar hæst grímunotkun á veitingastöðum, á meðan ekki er setið við borð, og er starfsfólki ætlað að framfylgja þessu af samviskusemi. Þá verður ekki leyfilegt að hleypa nýjum gestum inn á veitingastaði eftir klukkan 22:00 en öllum veitingastöðum er eftir sem áður gert að loka á miðnætti.

Uppákomur, sem fara fram innandyra, verður nú ekki fleiri en 20 manns heimilt að sækja nema hver hafi sitt fasta sæti, borgarbúum er almennt uppálagt að umgangast ekki fleiri en tíu manns á viku, allir sem það geta skulu sinna starfi sínu heima hjá sér og háskólum ber að halda uppi kennslu um fjarfundabúnað þar sem það er mögulegt.

NRK

NRKII

VG

Aftenposten

mbl.is