Forstjóri Twitter „grillaður“ af þingmönnum

Jack Dorsey, forstjóri Twitter, sat fyrir svörum á þingnefndarfundi í …
Jack Dorsey, forstjóri Twitter, sat fyrir svörum á þingnefndarfundi í dag. AFP

Jack Dorsey, forstjóri samskiptamiðilsins Twitter, fékk heldur betur orð í eyra frá bandarískum þingmönnum í dag, sem spurðu hann spjörunum úr á fjarfundi versl­un­ar- og viðskipta­nefnd­ar öldungadeildarinnar.

Til umræðu var svo­kallaður 230. kafli (e. Secti­on 230), sem er in­ter­net­lög­gjöf sem ger­ir tækni- og sam­fé­lags­miðlafyr­ir­tækj­um kleift að kom­ast hjá lög­sókn vegna efn­is eða um­mæla sem not­end­ur þeirra birta, en mikið hefur verið rætt um Twitter í því samhengi.

Meginþemað í spurningum repúblikana var gagnrýni á meinta ritskoðun Twitter á íhaldsfólki. „Hver í fjandanum kaus þig,“ hrópaði Ted Cruz, öldungadeildarþingmaður frá Texas, að Dorsey á fundinum.

Dorsey var einnig spurður út í ritskoðun á Donald Trump Bandaríkjaforseta, en hann þvertók fyrir að slíkt hefði verið gert. „Svo það sé alveg ljóst þá höfum við ekki ritskoðað forsetann,“ sagði hann. Fyrirtækið hefði ekki tekið niður neinar twitter-færslur forsetans heldur „bætt samhengi við þær, eins og við myndum gera við hvaða þjóðarleiðtoga sem er.“

Ted Cruz, þingmaður öldungadeildarinnar, var ósáttur með meinta ritskoðun Twitter …
Ted Cruz, þingmaður öldungadeildarinnar, var ósáttur með meinta ritskoðun Twitter á repúblikönum. AFP

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook sem einnig sótti fundinn, var spurður út í aðgerðaráætlun miðilsins ef Trump myndi halda því fram að hann hefði unnið forsetakosningarnar í næstu viku áður en talningu atkvæða væri lokið.

„Ef einhver segist hafa unnið kosningarnar áður en niðurstöðurnar liggja fyrir munum við hengja upplýsingaspjald við færsluna sem tekur fram að formlegar niðurstöður kosninganna séu ekki komnar enn,“ sagði Zuckerberg sem passaði upp á að orða svar sitt á þann veg að ekki væri gefið í skyn að Trump væri líklegri til slíks verknaðar en Joe Biden mótframbjóðandi hans.

Kosningar til forseta Bandaríkjanna fara fram þriðjudaginn 3. nóvember, í næstu viku. Nú þegar hafa rúmlega 60 milljónir manna greitt atkvæði utan kjörfundar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert