Frakkar og Þjóðverjar herða ólina

Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Angela Merkel kanslari Þýskalands eru samstíga.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Angela Merkel kanslari Þýskalands eru samstíga. AFP

Stjórnvöld í Þýskalandi og Frakklandi íhuga nú enn harðari aðgerðir í nóvembermánuði en í báðum ríkjum eru takmarkanir sem miða að því að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar nú þegar býsna þröngar. Fjögurra vikna hertar aðgerðir í Frakklandi verða þó væntanlega ekki jafn takmarkandi og þær voru í vor. 

Angela Merkel kanslari Þýskalands ræðir nú við leiðtoga innan ríkisins um það hvort loka eigi börum, frístundaheimilum og hótelum til að takmarka útbreiðslu veirunnar. Emmanuel Macron Frakklandsforseti tilkynnir væntanlega hertar aðgerðir á allra næstu dögum en þær gætu tekið gildi frá og með fimmtudagskvöldi. 

Covid-sýkingar í Evrópu eru næstum eins margar og í fyrstu bylgju faraldursins þótt prófanir séu mun umfangsmeiri en áður var. Útgöngubann að næturlagi er í gildi í nokkrum löndum. 

Skólar áfram opnir

Þýsk stjórnvöld hafa mikinn áhuga á að geta gert fjölskyldum og vinum kleift að hittast yfir jólin en þar stendur faraldurinn nú sem hæst. 

Drög að reglugerð um hertar aðgerðir í Þýskalandi gera ráð fyrir víðtækum lokunum frá 4. nóvember. Skólar yrðu þó áfram opnir. Samkvæmt drögunum verður Þjóðverjum gert að hitta ekki fólk frá fleiri en tveimur heimilum (sínu eigin meðtöldu), kvikmyndahúsum, leikhúsum og fleiri stöðum yrði lokað sem og börum og veitingastöðum en þeim yrði þó leyft að afgreiða mat sem fólk gæti tekið með sér. Þá yrði nudd- og húðflúrstofum lokað en hárgreiðslustofum leyft að hafa opið áfram.

Í Frakklandi eru umfangsmiklar aðgerðir til skoðunar sem fyrirhugað er að gildi í fjórar vikur. Fregnir herma að skólar verði áfram opnir en hvatt verði til fjarnáms fyrir eldri börn og háskólanemendur. Aðgerðir í Frakklandi gætu tekið gildi frá og með fimmtudagskvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert