Skimun hunda fyrir veirunni þykir lofa góðu

Hundarnir og þjálfarar þeirra á flugvellinum í Helsinki.
Hundarnir og þjálfarar þeirra á flugvellinum í Helsinki. AFP

Verkefni þar sem hundar eru notfærðir til að þefa uppi kórónuveiruna á flugvellinum í Helsinki þykir hafa gefið góða raun og hefur reynst vinsælt hjá ferðamönnum. Þetta tilkynntu vísindamennirnir sem standa að verkefninu í dag.

Þrír hundar hafa þefað af sýnum sem tekin hafa verið úr 2.200 farþegum frá því verkefnið hófst fyrir um mánuði. Hafa þeir fundið veirusmit í 0,6% farþeganna.

Tíðni jákvæðra greininga svipuð

Þó ekki sé búist við að rannsóknin klárist fyrr en í desember þá segir hópurinn að fyrstu niðurstöður samsvari nokkuð vel þeirri tíðni smita sem hefðbundin PCR-próf hafa numið á vellinum.

„Við höfum gert 16 til 17 þúsund PCR-próf á flugvellinum og færri en eitt prósent hafa reynst jákvæð,“ sagði Timo Aronkyto, aðstoðarborgarstjóri Vantaa, á blaðamannafundi í dag.

Sagðist hann ekki telja að tölfræðilegur munur væri á niðurstöðum hundanna annars vegar og hefðbundna sýnatökuferlisins hins vegar.

Rýnir í niðurstöðurnar

Nú skoðar hópurinn hvort niðurstöðurnar séu í raun þær sömu, það er hvort hundarnir hafi skynjað veirusmit hjá sömu farþegum og greindust smitaðir í PCR-prófunum. Vonast þeir til að kynna niðurstöðurnar fyrir lok þessa árs.

Tilraunir í fyrstu bylgju faraldursins fyrr á árinu bentu til þess að hundar gætu skynjað veirusmit með nærri 100% vissu, og allt að fimm dögum fyrr en PCR-próf.

Væri hægt hér á landi

Hægt væri að byrja að nýta hunda við að þefa uppi veirusmit hér á landi inn­an fárra mánaða ef ákvörðun væri tek­in um það, sagði hundaþjálf­ar­inn Jó­hanna Þor­björg Magnús­dótt­ir í samtali við mbl.is í síðasta mánuði.

Hún hef­ur meðal annars þjálfað hunda í myglu­leit og er sann­færð um gagn­semi fer­fætl­ing­anna við að leita uppi veiruna. 

mbl.is