Stjórnlaust ástand í Fíladelfíu

AFP

Átök hafa geisað í Fíladelfíu í nótt, aðra nóttina í röð, eftir að lögregla skaut svartan mann til bana á mánudag. 

Að sögn lögreglu hafa hundruð tekið þátt í gripdeildum og eyðileggingu í borginni. Mikill viðbúnaður er hjá lögreglu og eins hefur þjóðvarðliðið tekið þátt í aðgerðum en um 30 lögregluþjónar meiddust í átökunum aðfaranótt þriðjudags.

Frá Fíladelfíu í gærkvöldi.
Frá Fíladelfíu í gærkvöldi. AFP

BBC hefur eftir lögreglu að lögreglumenn hafi skotið Walter Wallace, sem var 27 ára gamall, eftir að hann neitaði að sleppi hníf sem hann hélt á. Að sögn fjölskyldu Wallace glímdi hann við andleg veikindi.

Í gærkvöldi bað lögregla íbúa borgarinnar um að halda sig fjarri Port Richmond-hverfinu vegna gripdeilda þar. Almannavarnadeild borgarinnar sendi síðan út viðvörun til íbúa borgarinnar um að halda sig inni vegna mótmæla sem hefðu snúist upp í óeirðir. Verslunum í borginni var lokað snemma í gær og varnargirðingar settar upp til þess að koma í veg fyrir að æstur múgurinn færi inn, rændi og ruplaði. 

AFP

BBC vísar í frétt CBS um að borgarbúar hafi komið að luktum dyrum í lyfjaverslunum og því ekki hægt að kaupa lyf í borginni þar sem eigendur þeirra töldu ekki óhætt að hafa opið. 

Borgarstjórinn í Fíladelfíu, Jim Kenney, segir að hann hafi myndskeið undir höndum sem sýni lögregluna skjóta Wallace til bana og að erfiðum spurningum sé enn ósvarað. Hann segir að rannsókn málsins verði hraðað, það sé gert bæði fyrir fjölskyldu Wallace, lögreglumennina og allt samfélagið í Fíladelfíu. 

AFP

Lögreglustjórinn í borginni, Danielle Outlaw, segist hafa farið og rætt við fólk sem eigi hlut að máli. Reiði samfélagsins sé nánast áþreifanleg að hennar sögn. En tryggja verði lög og reglu í borginni og því verði gripið til ráða eins og að fjölga lögreglumönnum á vakt. 

Fyrr á árinu kom til fjölmennra mótmæla í Fíladelfíu vegna dráps lögreglunnar á George Floyd í Minneapolis. Á mánudagskvöldið tóku hundruð þátt í mótmælum vegna drápsins á Wallace og 91 var handtekinn. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert