Þjófnaður á nasistaminjum vandamál

Einkennisbúningar SS-sveitanna hafa verið eftirsóttir af þjófum undanfarið.
Einkennisbúningar SS-sveitanna hafa verið eftirsóttir af þjófum undanfarið. Ljósmynd/Wikipedia.org

Stríðsminjasöfn í Hollandi hafa þurft að herða öryggisráðstafanir verulega eftir mikla aukningu á þjófnaði á munum sem tengjast Adolf Hitler, nasistum og öðrum kimum þriðja ríkisins.

Svo virðist sem um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða, en eftirspurn eftir munum af þessu tagi er mjög mikil á heimsvísu. Hafa fjölmörg söfn því neyðst til að taka frægustu minjar sínar úr sýningu og læsa þær inni í geymslum.

„Í gær tók ég niður hluti sem tengjast Hitlersæskunni [ungliðahreyfingu nasista], og einkennisbúningar SS-sveitarinnar verða einnig fjarlægðir,“ sagði eigandi safns í bænum Loon op Zandsem í Hollandi.

Safnið þurfti einnig að læsa inni hnífapör sem bæði Hitler og hægri hönd hans, Heinrich Himmler, notuðu persónulega, af ótta við að þeim yrði stolið.

Stríðssafnið í Arnhem gekk skrefinu lengra, en þar fyrir utan var vegatálmum komið fyrir svo stór ökutæki kæmust ekki upp að safninu.  

Fyrir tveimur vikum stálu þjófar í Hollandi stríðsminjum að andvirði tugmilljóna króna, en meðal þeirra voru einkennisbúningar SS-sveitanna, fallhlífar og skotvopn.

Frétt The Guardian um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert