Tvö bóluefni en samt fjölgar smitum

Hjúkrunarfræðingur bólusetur sjálfboðaliðann Ilya Dubrovin, 36 ára, með nýjasta rússneska …
Hjúkrunarfræðingur bólusetur sjálfboðaliðann Ilya Dubrovin, 36 ára, með nýjasta rússneska bóluefninu. AFP

Þrátt fyrir að Rússar hafi samþykkt tvö bóluefni til neyðarnotkunar í baráttunni við kórónuveiruna fjölgar smitum þar hratt. Bóluefnið stendur almenningi enn ekki til boða og gæti bólusetning sem hefði veruleg áhrif á samfélagssmit tekið heilt ár. Sérfræðingar hafa áhyggjur af gagnsemi bóluefnisins og öryggi þess vegna skorts á rannsóknum. 

Vladimir Pútín Rússlandsforseti greindi frá því í ágúst að fyrsta bóluefnið gegn kórónuveirunni væri komið á markað, það væri rússneskt og bæri heitið Sputnik V. Bóluefnið átti að færa Rússa nær lokum faraldursins þar í landi. 

Pútín, sem er þekktur fyrir að halda fjölskyldu sinni frá fjölmiðlum, sagði að ein dóttir hans hefði þegar fengið bóluefnið og henni liði vel. 

Vladimir Pútín Rússlandsforseti.
Vladimir Pútín Rússlandsforseti. AFP

Daglegur smitfjöldi aldrei meiri

Nú þegar önnur bylgja kórónuveirufaraldursins er skollin á og rúmlega það í Rússlandi hefur daglegur smitfjöldi aldrei verið meiri og hið sama má segja um dauðsföll. Sputnik V er langt frá því að vera í boði fyrir almenning. 

Fleiri en 1,5 milljónir manns hafa smitast í Rússlandi og að minnsta kosti 26.269 eru fallnir frá vegna Covid-19 þar í landi. Sérfræðingar hafa áður efast um að talning tilfella í Rússlandi sé rétt. 

Bóluefnið var samþykkt innan Rússlands eftir að það hafði verið prófað á nokkrum tugum einstaklinga, áður en það fór í gegnum þriðja stigs rannsókn sem er lykilatriði í að staðfesta öryggi bóluefnisins og gagnsemi. 

„Ekkert sem kemur í stað klínískra rannsókna“

Alexander Gintsburg, yfirmaður Gamaleya-stofnunarinnar sem þróaði bóluefnið, sagði í viðtali við CNN að nú hafi 17.000 manns tekið þátt í þriðja stigs rannsókn en viðurkenndi að einungis 6.000 þeirra hefðu fengið báða skammtana af bóluefninu en það er nauðsynlegt skref til að ljúka bólusetningunni. 

Bóluefnið er ætlað fólki á aldrinum 18 – 60 ára, samkvæmt þeim leiðbeiningum sem því fylgja, þar sem rannsóknir hafa einungis verið gerðar á þessum aldurshópum. Þrátt fyrir það sagði Gintsburg að fólk sem væri eldra en 60 ára gæti samt sem áður verið bólusett með efninu. 

Alþjóðlegir veirufræðingar efast um fullyrðingar Rússa um sannað öryggi bóluefnisins. 

„Fólk sem er bólusett [með rússnesku bóluefnunum] mun ekki vita hvort það sé verndað eða fái alvarlegan sjúkdóm fyrr en það kemst í snertingu við veiruna,“ sagði Konstantin Chumakov, helsti veirufræðingur Global Virus Network, í samtali við CNN.

„Til þess að kanna það þarf að bólusetja heilan helling af fólki og bara bíða þangað til það smitast og sjá hvort færri þeirra smitist eða hvort sjúkdómseinkennin verði vægari. Það er bara ekkert sem kemur í stað klínískra rannsókna,“ sagði Chumakov. 

mbl.is