Hafnaði beiðni repúblikana

Lögregluþjónar stóðu vörð um byggingu Hæstaréttar í vikunni.
Lögregluþjónar stóðu vörð um byggingu Hæstaréttar í vikunni. AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur hafnað beiðni Repúblikanaflokksins um flýtimeðferð á kröfu um að rétturinn hindri kjörstjórnir í Pennsylvaníuríki frá því að fá þriggja daga frest eftir kjördag til að klára talningu utankjörfundaratkvæða.

Þótt rétturinn hafi hafnað flýtimeðferðinni útilokar það ekki aðkomu hans að málinu á síðari stigum, eftir kjördag.

Þrír íhaldssamir dómarar, Samuel Alito, Clarence Thomas og Neil Gorsuch, gáfu það einmitt til kynna að svo kynni að verða.

Ákvörðun æðsta dómstóls Pennsylvaníu „brýtur líklega í bága við stjórnarskrá alríkisins“, skrifaði Alito í gær fyrir hönd þeirra þriggja. Hún geti þá „leitt til alvarlegra vandkvæða eftir kosningarnar“.

Snerist á sveif með frjálslyndum

Sama mál kom í raun fyr­ir rétt­inn í síðustu viku, eftir að æðsti dóm­stóll rík­is­ins hafði leyft kjörstjórnum að viðhafa þennan frest.

For­seti rétt­ar­ins, John Roberts, sner­ist þá á sveif með frjáls­lyndu fylk­ing­u réttarins. Atkvæði féllu því 4-4 og þá hélt niðurstaða lægra dóm­stigs gildi sínu.

Í at­kvæði sínu út­skýrði Roberts að í Penn­sylvan­íu-mál­inu hefði rík­is­dóm­stóll­inn verið að beita stjórn­ar­skrá eig­in rík­is.

Bent hefur verið á að álita­efni á borð við þetta, þar sem tek­ist er á um sjálf­stæði dóm­stóla ein­stakra ríkja, geti orðið lyk­il­atriði í þeim mál­um sem kunna að rísa um fram­kvæmd for­seta­kosn­ing­anna.

Amy Coney Barrett sat fyrir svörum á Bandaríkjaþingi eftir að …
Amy Coney Barrett sat fyrir svörum á Bandaríkjaþingi eftir að forsetinn tilnefndi hana til setu við dómstólinn. AFP

Barrett tók ekki þátt

Rétturinn neitaði einnig seint í gær, í keimlíku máli sem á borð hans barst frá Norður-Karólínu, að víkja úr vegi svipaðri framlengingu sem kjörstjórn ríkisins hafði komið á fót.

Athygli vekur vestanhafs að nýskipaði dómarinn Amy Coney Barrett tók þátt í úrlausn hvorugs málanna.

Í mjög óvenjulegri tilkynningu frá skrifstofu Hæstaréttar segir að hún hafi ekki tekið þátt þar sem málin hafi bæði krafist skjótrar úrlausnar, að því er fram kemur í umfjöllun NPR.

Hún hefði ekki haft nægan tíma til að skoða almennilega skriflega málflutninginn sem borinn var upp við réttinn.

mbl.is