Hvetur fólk til að kjósa Trump

Til vinstri má sjá Jack Nicklaus.
Til vinstri má sjá Jack Nicklaus. AFP

Kylfingurinn og goðsögnin Jack Nicklaus greindi frá því í gær að hann hygðist kjósa sitjandi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, í komandi kosningum á þriðjudag. Þá hvatti hann aðra Bandaríkjamenn að gera slíkt hið sama. 

Jack sagði frá þessu á Twitter-síðu sinni í gær. Í pistlinum kom m.a. fram að hann gerði sér grein fyrir hvernig forsetinn kann oft á tíðum að koma fram. Hins vegar verði kjósendur að „horfa framhjá því og líta þess í stað á þann árangur sem náðst hefur.“

Nicklaus er nú áttræður að aldri en hann hefur unnið átján risatitla á ferlinum. Hann greindist með kórónuveiruna í mars en hefur nú náð sér að fullu. Undir lok pistilsins sagði hann að ameríski draumurinn væri undir: „Þessar kosningar snúast ekki um persónuleika heldur um landið í heild.“

mbl.is