Norsk freigáta til Persaflóa

Freigátan KNM Fridtjof Nansen og menn úr sérsveit norska sjóhersins, …
Freigátan KNM Fridtjof Nansen og menn úr sérsveit norska sjóhersins, Marinejegerkommandoen, í verkefni á Aden-flóa, úti fyrir ströndum Sómalíu. Ljósmynd/Norski sjóherinn

Ríkisstjórn Noregs íhugar að senda freigátu til Persaflóa sem tæki þar þátt í heræfingunni Cooperative Deployment árin 2021 og 2022 undir stjórn bandaríska flotans. Freigáta er herskip sem ber flugskeyti, er ætlað til kafbátaleitar og að vera öðrum skipum til fylgdar og fulltingis.

Æfingasvæðið teygir sig, samkvæmt áætlunum, yfir töluvert svæði, þar á meðal Rauða hafið, Oman-flóa og Indlandshaf. Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Hægriflokksins, staðfestir þessar hugleiðingar við norska ríkisútvarpið NRK og sýnist sitt hverjum.

„Það er óskiljanlegt að sjóherinn hyggist taka þátt í stríðsæsingum við Hormuz-sundið,“ sagði Bjørnar Moxness, leiðtogi vinstriflokksins Rødt, í munnlegum fyrirspurnatíma við Stórþingið, „norsk herskip eiga að verja strendur Noregs frekar en að herja hitabeltisvötn með Bandaríkjamönnum.“

Sérútbúin fyrir heit svæði

Heldur Moxness því fram að Bakke-Jensen varnarmálaráðherra hafi í janúar sagt að ekki kæmi til greina að senda herskip til Mið-Austurlanda og krefjist flokkur hans þess að fallið verði frá öllum áformum um slíkt.

Nokkur norsk herskip hafa þegar verið útbúin til að sinna verkefnum í heitu loftslagi og kostuðu slíkar breytingar skipanna 91 milljón norskra króna, jafnvirði 1,3 milljarða íslenskra. Fela slíkar breytingar meðal annars í sér loftkælingu í öllum vistarverum skipanna sem lítil þörf er á úti fyrir norskum ströndum. Meðal þeirra skipa sem útbúin hafa verið fyrir hitabeltisloftslag eru freigáturnar KNM Fridtjof Nansen og KNM Roald Amundsen.

Aðgerðastjórnstöð norska hersins er kunnugt um vangavelturnar í varnarmálaráðuneytinu. „Við vitum að þetta er til skoðunar og bíðum niðurstöðu. Þetta er á pólitísku stigi eins og staðan er núna,“ segir Jørn Hammarbeck sjóliðsforingi við NRK.

Styrkja þátttöku sjóhersins

Bakke-Jensen varnarmálaráðherra segir tilgang æfinganna augljósan, þeim sé ætlað að gera sjóher Bandaríkjanna betur í stakk búinn til að framkvæma aðgerðir í samstarfi við bandalagsþjóðir sínar.

„Við ætlum okkur að styrkja þátttöku norska sjóhersins í athöfnum sem efla hæfni hans til varna í samstarfi við aðra. Eins að bæta aðgerðasamhæfingu með bandaríska flotanum sem mun leggja grunninn að liðsauka úr þeirri átt til handa Evrópu og Noregi í stríði og öðru neyðarástandi,“ segir ráðherra.

Freigátan KNM Thor Heyerdahl siglir inn til Halifax í Kanada …
Freigátan KNM Thor Heyerdahl siglir inn til Halifax í Kanada í september í fyrra. Ljósmynd/Norski sjóherinn

Anniken Huitfeldt, formaður utanríkis- og varnarmálanefndar Stórþingsins, snýst á sveif með Bakke-Jensen og kveður æfingar með Bandaríkjamönnum þýðingarmiklar. „Nauðsyn er að undirbúa herflotann fyrir verkefni utan kjarnasvæða NATO [Atlantshafsbandalagsins],“ segir formaðurinn við NRK.

„Að við höldum heræfingar með bandalagsþjóðum okkar í NATO er vandkvæðalaust. Það er eingöngu umdeilanlegt í augum þeirra sem leggjast gegn aðild Noregs að NATO,“ segir Huitfeldt.

NRK

NRKII (heræfingar Norðmanna í Mið-Austurlöndum)

NRKIII (umdeild umsvif í austrinu)

mbl.is