Sá „nafnlausi“ stígur fram

AFP

Nafn­laus emb­ætt­ismaður bandaríska for­seta­embætt­is­ins, sem skrifaði grein í The New York Times í sept­em­ber 2018 um stöðu mála í Hvíta hús­inu, hefur stigið fram. Greinin vakti gríðarlega athygli á sínum tíma og ekki síður bók sem fylgdi í kjölfarið; A Warning.

Sá nafnlausi heitir Miles Taylor og er fyrrverandi starfsmannastjóri (former chief of staff) í heimavarnaráðuneytinu. „Við skuldum forsetanum ekki þögn okkar,“ segir Taylor og bætir við: „Við skuldum honum og bandarísku þjóðinni sannleikann.

Þegar greinin var birt á sínum tíma vakti hún mikla reiði innan Hvíta hússins og var sett af stað víðtæk rannsókn á því hver gæti verið höfundur hennar. Á þeim tíma hvatti Donald Trump Bandaríkjaforseti dómsmálaráðuneytið til að rannsaka málið og sagði höfundinn heigul. 

Í bókinni A Warning lýsir Taylor því hvernig var að vinna undir stjórn Trumps. Þar er honum lýst sem grimm­um, klaufsk­um og hættu­leg­um þjóð sinni. 

Í yfirlýsingu sem birt var í gær segir Taylor, en hann starfar nú hjá CNN, að mikið hafi verið gert úr því að hann hafi ekki komið fram undir nafni á sínum tíma. Ástæðan hafi verið sú að með því að koma fram með gagnrýni hafi forsetinn neyðst til þess að svara þeim beint og til allra í stað þess að það yrði gert með móðgunum og nafnakalli. „Ég vildi að athyglinni yrði beint að málefninu sjálfu.“

Talskona forsetans, Kayleigh McEnany, var fljót til svars og sagði Taylor vera lítilvægan, ergilegan fyrrverandi starfsmann og Mark Meadows, starfsmannastjóri Hvíta hússins, segist hafa séð meira spennandi uppgötvanir í þáttunum um Scooby-Doo.

Trump talaði um þetta á kosningafundi í Arizona í gærkvöldi og sagði að Taylor væri mesta lítilmenni allra lítilmenna sem hann þekkti ekki. Samt sem áður sat Taylor fjölda funda með forsetanum þegar hann starfaði í heimavarnaráðuneytinu samkvæmt frétt AP-fréttastofunnar. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert