Tugir ungmenna fundust í óþekktum gröfum

AFP

Að minnsta kosti 59 lík hafa fundist í óþekktum gröfum í Guanajuato-ríki í Mexíkó. Mikill hluti þeirra virðist vera af ungu fólki, jafnvel unglingum segir Karla Quintana, sem stýrir leitar- og kennslanefnd alríkisins.

Ofbeldisbrot eru gríðarlega algeng í Guanajuato en ríkið er auðugt og státar af dýrmætum orkuauðlindum og laðar ríkidæmið skipulagða glæpastarfsemi að sér. 

Quintana segir að á milli 10-15 konur séu meðal þeirra látnu. Grafirnar fundust í Barrio de San Juan hverfinu í borginni Salvatierra sem er sunnarlega í ríkinu. 

Yfirvöld voru látin vita af því að mögulega væri grafir að finna í hverfinu og hefur síðan þá verið unnið að því að finna þær og grafa líkin upp. Talið er að grafirnar séu enn fleiri að sögn Quintana. 

Yfir 80 manns kemur að rannsókninni og hefur hópurinn þegar fundið 52 grafir.  

Tvö glæpagengi hafa tekist á um völdin í undirheimum Guanajuato, Jalisco og Santa Rosa de Lima. Í júlí gerðu þungvopnaðir menn áhlaup á meðferðarstöð í borginni Irapuato og drápu þar 27 manns. 

Í gær fundust einnig lík sex karla og tveggja kvenna í Ciudad Juarez sem er á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna. Hendur þeirra og fætur voru bundin og voru miklir áverkar á mörgum þeirra. Fólkið hafði allt verið skotið í höfuðið og líkama. Þremur fórnarlambanna hafði verið rænt á mánudag í Aldama-hverfinu að sögn lögreglu. Yfirvöld telja að fólkið hafi verið tekið af lífi annarsstaðar en þar sem grafir þeirra fundust. 

Yfir 293 þúsund einstaklingar hafa verið myrtir í Mexíkó frá því yfirvöld þar í landi skáru upp herör gegn eiturlyfjabarónum í landinu árið 2006.

mbl.is